144. löggjafarþing — 146. fundur,  3. júlí 2015.

stjórn fiskveiða.

814. mál
[10:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í atvinnuveganefnd og varaformaður þar, treystir sér til að styðja hér aðgerðir í þágu smábáta. Það er mikill misskilningur að mínu mati sem kom fram í málflutningi hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar að hér væri um eitthvert nýtt makrílfrumvarp að ræða, svo er auðvitað alls ekki. Það er þannig að við ráðstafanir aflaheimilda í makríl fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var úthlutað 2.000 tonnum minna, þ.e. hæstv. ráðherra hélt eftir 2.000 tonnum til þess að geta aukið við möguleika smábáta á að veiða. Þau tonn verða til ráðstöfunar frá ráðuneytinu og þarna geta menn keypt sér aflaheimildir fyrir sanngjarnt framlag. Þetta er ekki síst hugsað fyrir þá sem hafa ekki nægjanlegt magn til þess að fara í veiðarnar eftir að aflaheimildum var úthlutað, að þeir geti bætt við og farið þannig í arðsamar veiðar. Einnig er þetta leið fyrir þá sem ekki hafa stundað makrílveiðar áður til að fara inn í þetta kerfi og stunda veiðarnar. Þetta er auðvitað allt gert í þeirra þágu, þessa kerfis, að auka aflaheimildirnar sem voru í kringum 7.000 tonn í fyrra upp í 9.000 tonn. Það hefur síðan komið fram í umræðunni að svokölluðu pottaframlagi eða 5,3 prósentunum, sem mundu gera milli 8.000 og 9.000 tonn í ár, verði ráðstafað a.m.k. að góðum hluta, jafnvel að öllu leyti, til þessa kerfis í framtíðinni. Það þýðir að aflaheimildir í makríl fyrir smábátakerfið geta farið upp í kannski 10.000–12.000 tonn og mér til efs, alla vega eins og staðan er í dag, að það komi jafnvel umfram það sem sá floti ræður við, þótt hann geti kannski ráðið við eitthvað meira í framtíðinni.

Við höfum reynt að skýra þetta fyrir hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni á undanförnum dögum, við sem tókum þátt í umræðu um þetta í hv. atvinnuveganefnd. Fulltrúi Pírata hefur ekki verið á fundum atvinnuveganefndar til að fara yfir þetta mál og ég fullyrði að um algeran misskilning er að ræða, en okkur hefur ekki tekist að koma hv. þingmanni í skilning um málið.