145. löggjafarþing — 1. fundur,  8. sept. 2015.

afsal þingmennsku.

[13:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Alþingi hefur borist bréf frá 10. þm. Reykv. s., Jóni Þór Ólafssyni, þar sem hann segir af sér þingmennsku frá og með deginum í dag, 8. september 2015. Les ég nú bréf frá hv. þingmanni, sem er dagsett í Reykjavík 4. september sl.:

„Forseti Alþingis,

hr. Einar Kristinn Guðfinnsson.

Með þessu bréfi segi ég af mér þingmennsku við lok 144. þings, þriðjudaginn 8. september næstkomandi.

Ég þakka starfsfólki Alþingis, þingmönnum, ráðherrum, Pírötum og landsmönnum öllum fyrir árangurs- og lærdómsríkt samstarf á undanförnum tveimur árum. Haustið fer í að taka saman þann lærdóm og gera landsmönnum aðgengilegan á internetinu. Með trú á aukna vernd borgararéttinda og eflingu lýðræðis í landinu. Þið finnið mig í grasrótinni.

Virðingarfyllst

Jón Þór Ólafsson,

10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.“

Við þingmennskuafsal Jóns Þórs Ólafssonar tekur Ásta Guðrún Helgadóttir sæti hans á Alþingi og verður 10. þm. Reykv. s.

Ég vil af þessu tilefni færa Jóni Þór Ólafssyni þakkir fyrir starf sitt á Alþingi. Hann hefur á meðan hann gegndi þingmennsku meðal annars átt sæti sem áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd og gegnt starfi þingflokksformanns og þannig komið að stjórn þinghaldsins. Óska ég honum farsældar í þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur.

Ásta Guðrún Helgadóttir hefur áður tekið sæti á Alþingi og býð ég hana velkomna til starfa.