145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur að hluta til komið fram það sem ég ætlaði að spyrja um varðandi ljósleiðaravæðinguna, ljós í fjós, eins og kallað var hérna, en það breytir því ekki — við sitjum bæði í fjárlaganefnd, ég og hv. þingmaður sem hélt hér ræðu og kom einmitt inn á það að þetta verður eitt af því sem við fáum að heyra þar og veldur væntanlega mörgum miklum vonbrigðum. Af því að komið var inn á vegamálin, því að þetta helst oft í hendur, úrbætur í vegamálum, fjarskipti, ferðamannaiðnaðurinn, búsetan og allt hvað það nú heitir og nefnt var áðan að nemendur koma ekki heim til sín af því að þeir geta ekki lært heima vegna þess að netsamband er svo lélegt.

Í því samhengi langar mig að halda áfram og tala um flugið og flugvellina og spyrja hv. þingmann hvort hann telji það vera nægilegt eða hvort hann muni beita sér fyrir breytingum á fjárlögum í þá veru að auka fjármuni til að lækka innanlandsflugið fyrir notendur. Gerð var skýrsla líka, eins og við þekkjum, og þingmenn komu fram með tillögu um að reyna að ná fluginu niður. Við sitjum uppi með viðhald vega sem er algerlega óásættanlegt og ég trúi því og treysti að hv. þingmaður leggi okkur lið sem viljum breyta því. Ég var norður í Árneshreppi á dögunum og þar var nánast ófært, ekkert nánast, það var ófært á köflum og ekki bjóðandi ástand eins og við þekkjum. Ég spyr því hvort þingmaðurinn, af því að það er hættulegt ástand mjög víða, komi til með að leggja til breytingar á þessu núna við umræðu um fjárlögin í fjárlaganefnd.