145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það kallar á góða umræðu hér og vonandi gefast tækifæri til þess á næstu dögum, e.t.v. þegar hann mælir fyrir öðrum frumvörpum sem tengjast fjárlögunum, að ræða um horfurnar fram á við, því að þar byrja áhyggjuefnin að sækja að manni. Það er spáð verulega vaxandi verðbólgu, það er augljóslega að myndast ákveðið ójafnvægi eða að minnsta kosti sjáum við merkin um að það geti verið að byggjast upp. Þar er að mínu mati ekki bara við kjarasamninga að sakast, það er fleira sem kemur þar til. Við sjáum að vöruskiptajöfnuðurinn er að nálgast núllið og við erum marga mánuði núna að undanförnu farin að flytja inn meiri vörur en við framleiðum sjálf. Viðskiptajöfnuðurinn helst góður vegna hinna gríðarlegu tekna af ferðaþjónustunni og vegna þess að þjónustujöfnuðurinn er mjög sterkt jákvæður. Það stefnir í að hagvöxturinn verði í of miklum mæli drifinn áfram af einkaneyslu, það hefur aldrei reynst gæfulegt til lengdar. Þetta eru þeir þættir sem við þurfum að hafa mjög góðar gætur á og ekki falla í þá gryfju, sem menn gerðu iðulega á árunum fyrir hrun, að leita einhverra jákvæðra skýringa á því að mælarnir séu farnir að slá í rautt. Þegar viðskiptahallinn á Íslandi var 20–25% af vergri landsframleiðslu 2005/2006 og við vorum einhver að reyna að benda á að þetta væri ekki gæfulegt var fundið upp nýtt hugtak til að róa menn. Þetta var góðkynja viðskiptahalli, sögðu þeir, góðkynja viðskiptahalli. Hann reyndist aldeilis góðkynja, þannig að við skulum taka mælana alvarlega og horfa mjög rækilega á þá.

Ég nefndi líka fjárhag sveitarfélaganna. Við sem horfum á velferðarkerfið á Íslandi sem eina heild hjá hinu opinbera hljótum auðvitað að gefa því gætur að ekki er nóg að afkoma ríkisins batni ef sveitarfélögin lenda á sama tíma í auknum erfiðleikum. Hagvöxturinn þarf að vera sjálfbær, hann er stórgallað mælitæki, eins og við vitum vel, og vantar margt (Forseti hringir.) inn í hann til að segja alla söguna. Við megum aldrei trúa blint á einhverjar prósentur sem kannski er hagvöxtur byggður í allt of miklum mæli á einkaneyslu og skuldsetningu á nýjan leik.