145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almennt er sá taktur sleginn í fjárlagafrumvarpinu að verið er að bæta stórlega í á sviði velferðarmála, heilbrigðismála og velferðarmála almennt. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er búin að stórauka framlög til heilbrigðismála almennt frá því að hún tók við af fyrri ríkisstjórn sem skar mjög mikið niður til einmitt heilbrigðismála.

Varðandi einstaka liði frumvarpsins segi ég það sama og ég sagði áðan að hæstv. fjármálaráðherra er að leggja hér fram fjárlagafrumvarp. Ég á sæti í fjárlaganefnd. Þar kemur þetta frumvarp inn og allir þættir frumvarpsins verða rýndir og skoðaðir og það á jafnt við um Landspítalann sem og allar þær litlu heilbrigðisstofnanir vítt og breitt um landið sem mikið var skorið niður hjá á síðasta kjörtímabili. Auðvitað verður horft til þátta eins og kjarasamninga og fleiri þátta þegar fjárlaganefnd tekur frumvarpið fyrir í fjárlaganefnd, en þetta er frumvarp sem fjármálaráðherra leggur fram í dag. Stóru línurnar eru þær (Forseti hringir.) að verið er að auka til velferðarmála og heilbrigðismála. Fjárlaganefnd fær frumvarpið til meðferðar og fer yfir þetta mál og fleiri.