145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og sérstaklega að það haldi áfram vegna þess að þetta eru allt hugmyndir sem hafa verið viðraðar og blessunarlega ræddar. Það á að ræða þær, hugmyndir á borð við samfélagsbanka, hugmyndir á borð við það að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu, hugmyndir á borð við afnám verðtryggingar, sömuleiðis vaxtaþök og allt þar fram eftir götunum. Hins vegar sé ég ekkert af þessum hugmyndum raungerast í stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er þess vegna sem ég spyr hv. þingmann hvernig hann vilji nálgast málið og hvað hann telji rétt að gera beinlínis vegna þess að maður sér þetta ekki í núverandi stefnu. Hvenær á þetta að gerast og hvenær hættum við að ræða þetta og ákveðum að gera þetta?

Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi verðtryggingarinnar frekar en nokkurs annars. En hvernig er skynsamlegt að haga peningakerfi í samfélagi jafn smáu, sjálfstæðu og háðu útflutningi og okkar er mér óljóst. Þess vegna kann ég vel að meta að það sé rætt. Hins vegar er það hv. Framsóknarflokkur sem hefur haft hvað mestar skoðanir á þessu og því spyr ég: Hvað er það við núverandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður telur raunverulega ganga að þessu markmiði?