145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi bankakerfið og Landsbankann sem samfélagsbanka og hvað núverandi ríkisstjórn er að gera: Eitt af því sem núverandi ríkisstjórn er að gera er að klára að taka á kröfuhöfum föllnu bankanna. Í dag eru tveir af þremur stærstu bönkum landsins í eigu þessara kröfuhafa. Það er auðvitað eitt af þeim verkefnum sem er grundvallaratriði til að geta tekið næstu skref varðandi hvernig við viljum sjá hlutina hér þróast.

Eitt af því sem hefur verið mikið í umræðunni er sparisjóðakerfið, hvernig það var byggt upp samfélagslega. Við þurfum að taka umræðu um það sem samfélag hvort við ætlum ekki að sjá neitt koma í staðinn fyrir þessa sparisjóði og við þurfum að taka umræðu um það hvort við teljum að með þremur stórum bönkum sem ráða nánast öllu á markaði hér sé nægileg samkeppni á fjármálamarkaði. Þetta er eitt af því sem er til skoðunar. Ástæðan fyrir því að hv. þm. Frosti Sigurjónsson (Forseti hringir.) fer nú á nýjan leik að tala um Landsbankann sem samfélagsbanka og ákveðin samfélagsgildi (Forseti hringir.) er meðal annars sú að þessir litlu sparisjóðir eru liðnir undir lok. Við þurfum að taka þá umræðu (Forseti hringir.) en við klárum hana ekki hérna í dag í stuttum andsvörum.