145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er einkum tvennt sem ég ætla að bregðast við í ræðu hv. þingmanns. Í fyrsta lagi það sem ég kom stuttlega inn á í fyrra andsvari varðandi ljósleiðaravæðinguna. Þegar sú stefnumörkun liggur fyrir verður hún að sjálfsögðu kynnt mjög rækilega fyrir þinginu og í kjölfarið verður væntanlega farið í það að afla henni fjár, á næstunni, en eins og ég segi er ekki gert ráð fyrir því að þessi uppbygging eigi sér stað á næsta ári. Hér erum við að ræða stefnumörkun til lengri tíma sem krefst töluvert mikils undirbúnings og samninga við ýmsa aðila sem að slíkum verkefnum kunna að standa.

Hvað varðar sýslumennina er það svo að verkefnið núna var að tryggja sýslumönnum það fé sem þeir þurftu á að halda til að geta rekið embætti sín á sómasamlegan hátt. Að mínu mati er erfitt að vera með sýslumannsembætti í stórum byggðarlögum eins og ég tók dæmi um, Fjarðabyggð og Fjallabyggð. Fjallabyggð er viðkvæmt sveitarfélag, og það er Fjarðabyggð einnig, án þess að vera með sýslufulltrúa. Það var enginn sýslufulltrúi á þessum stöðum og mér finnst það ótækt og lagði mjög mikla áherslu á að þeir fjármunir fengjust. Ég er viss um að þingið tekur undir að það er nauðsynlegt.

Að öðru leyti eru óskir sýslumanna um fjármagn að sjálfsögðu miklu meiri en ég get mætt. Það er bara þannig í þessum málaflokki að menn vilja alltaf meira fé. Þetta eru fjárfrekir málaflokkar og auðvitað vilja menn fara í frekari verkefni og leggja sig eins mikið fram í þeim verkefnum sem þeim er falið og hægt er. En við verðum að sjálfsögðu að forgangsraða. Í þessu ráðuneyti er augljóst mál að við þurfum að forgangsraða töluvert vegna þeirra verkefna sem nú hvíla á okkur á því sviði (Forseti hringir.) sem hælisleitendur eru. Það þýðir að við getum ekki gert alla hluti. Ég vil hins vegar taka fram, hæstv. forseti, að það stendur ekki til (Forseti hringir.) af minni hálfu að færa fé vegna þessa málaflokks frá öðrum málaflokkum. Það verður að koma (Forseti hringir.) nýtt fé í þennan málaflokk. Ég hef talað skýrt fyrir því í ríkisstjórninni og mun gera það í þinginu og ég er alveg sannfærð um að við munum ná því.