145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar fyrirspurnir. Varðandi ofbeit og sjálfbærni þá er sjálfbærni algjörlega lykilorð dagsins í dag. Ég sagði í upphafi þegar ég tók að mér þetta embætti að nýtni og umgengni væru mitt leiðarljós. Umgengni á náttúrlega við um allt, þ.e. hvernig við göngum um landið, hvernig landið er beitt og hvernig ferðamenn ganga um, og meira að segja er matarsóun, sameiginlegt áhugamál mitt og þingmannsins, í raun stórt umhverfismál.

Mér finnst vera að koma fram ný sýn varðandi sjálfbærni um beitingu og skógrækt og uppgræðslu nú á allra síðustu mánuðum. Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var í lok ágúst var einn aðalfyrirlesturinn um hvernig hægt væri að tengja það tvennt saman. Það held ég að sé algjörlega möguleiki, t.d. ef ég tek bara skógræktina fyrir, að þegar tré eru komin í ákveðna hæð getur það jafnvel verið til bóta að beita skógarreitinn. Það er að gerast víða um land og bændur eru mjög meðvitaðir, það eru engir sem þekkja landið sitt betur en einmitt þeir. Menn stunda uppgræðslu í auknum mæli en eru kannski líka með stór sauðfjárbú og má skoða hvernig tengja má þetta tvennt saman, þannig að ég lít á það sem hið allra besta mál. Ég held að við snúum ekki blinda auganu að því efni. Ég hef svolítið hlegið að því, bara síðast í gær var fólk að tala við mig um umgengni á landinu (Forseti hringir.) og fór að tala um að það væru að koma sauðfjárgötur sums staðar en þó ekki eftir sauðfé heldur eftir mannfólkið.