145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu tillögum fjárlagafrumvarpsins hvað varðar þá málaflokka sem falla undir mitt ábyrgðasvið sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þeir málaflokkar eru margir og fjölbreyttir. Þar má nefna ferðamál, orkumál, iðnað, stóran og smáan, nýsköpun, hönnun auk almennra viðskiptamála sem ýmislegt annað fellur undir. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að um það bil 12 milljörðum verði varið í þessa málaflokka.

Fjármálaráðherra hefur farið vel yfir alla meginþætti frumvarpsins og gert ítarlega grein fyrir þeirri heildarsýn sem liggur að baki vinnslu frumvarpsins sem ég styð að sjálfsögðu. Ég hef ekki miklu við að bæta og mun nýta tíma minn til að fjalla um þá málaflokka sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Mig langar að byrja á nýsköpuninni og skapandi greinum. Það er mjög ánægjulegt að geta enn á ný lagt fram tillögu um stóraukin framlög til Tækniþróunarsjóðs. Nú er lagt til að auka framlög til Tækniþróunarsjóðs um 975 millj. kr. þannig að heildarfjárveitingar til sjóðsins verði um 2.345 millj. kr. á árinu 2016. Ég leyfi mér að fullyrða að það ríkir mikil ánægja almennt með starfsemi sjóðsins, bæði hjá fyrirtækjum og hjá þeim sem sækja í sjóðinn. Við teljum hins vegar að hægt sé að gera enn betur og höfum, í góðu samstarfi við stjórn sjóðsins, farið yfir ákveðna hluti og munum leita leiða til að kynna betur starfsemi sjóðsins og skýra það hlutverk hans að þjóna öllum atvinnugreinum um allt land. Farið verður í þá vinnu á næstunni.

Í fjárlagafrumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir að nýsköpunarfyrirtæki fái áfram skattfrádrátt vegna rannsókna og þróunar, sem nemur rúmlega 1,3 milljörðum, 1.360 millj. kr., og er 80 millj. kr. hækkun frá fjárlögum þessa árs.

Ég vil einnig geta þess að tímabundið 300 millj. kr. viðbótarframlag til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar verður framlengt til eins árs og nemur fjárveitingin samkvæmt frumvarpinu 1.137 millj. kr. og er til samræmis við það sem er að gerast í þessum málaflokki.

Ég vil að endingu nefna styrkingu hönnunarsjóðs sem settur var á stofn árið 2014 til að fylgja eftir hönnunarstefnu fyrir árin 2014–2018 sem samþykkt var í fyrra. Þá mun sjóðurinn hafa 45 millj. kr. til ráðstöfunar á næsta ári.

Ef við förum aðeins yfir í einföldun stjórnsýslunnar þá munum við halda áfram þeim einföldunarmálum sem við höfum verið að vinna að. Ég vil vekja sérstaka athygli á 30 millj. kr. fjárveitingu til að hanna kerfi sem auðveldar minni félögum skil á ársreikningum. Hnappurinn svokallaði, sem ríkisskattstjóri er að undirbúa, mun vonandi — ég geri mér vonir um það — valda sams konar straumhvörfum hjá atvinnulífinu og rafræn skattskil gerðu á sínum tíma hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Mig langar aðeins að fara yfir orkumál. Það hefur lengi verið baráttumál margra þingmanna að ná fram jöfnun kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis og kostnaði við dreifingu á raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Því er skemmst frá að segja að frumvörp þess efnis voru samþykkt sem lög á síðasta þingi og þess vegna er gert ráð fyrir því að framlög til húshitunar hækki nú um 285 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. Jafnframt er gert ráð fyrir að hægt verði að ná fullri jöfnun dreifikostnaðar raforku á næsta ári og framlagið til þess verður 913 millj. kr. á árinu 2016, þ.e. 65 millj. kr. hærra en á þessu ári. Það framlag ríkisins er fjármagnað með jöfnunargjaldi.

Hvað ferðamálin varðar vil ég byrja á því að vekja athygli á því að ekki er gert ráð fyrir framlögum til markaðs- og kynningarverkefnisins Ísland allt árið. Ég vek athygli á því að það breytir ekki því að verkefnið er enn í fullum gangi og svo verður út árið 2016 þar sem er árstöf milli fjárlaga og verkefnisins sjálfs en það þarf að taka afstöðu til framhalds verkefnisins í fjárlagagerð fyrir árið 2017.

Miklar umræður, ekki þarf að fjölyrða um það, hafa farið fram í sumar um aðbúnað á ferðamannastöðum. Á undanförnum tveimur árum hefur 1.700 millj. kr. verið varið til verndar og uppbyggingar á ferðamannastöðum í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Aldrei hafa jafn miklir fjármunir verið settir í þennan málaflokk og þar af hafa tæplega 500 millj. kr. komið frá gistináttaskatti en 1.230 millj. kr. hafa komið í gegnum sérstakar úthlutanir ríkisstjórnarinnar árin 2014 og 2015.

Við undirbúning fjárlagafrumvarpsins í vor var ljóst að umtalsverðir fjármunir, í kringum 1,2 milljarðar kr., liggja enn óhreyfðir í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hefur ekki verið ráðstafað í þau verkefni sem úthlutað hefur verið til. Við höfum verið að vinna að því í sumar að kortleggja stöðuna og ástæður þessa og það eru ýmsar skýringar á því sem margar eru eðlilegar en aðrar þarfnast frekari útskýringa við. Í kjölfarið munum við meta hve háum fjárhæðum stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða getur endurúthlutað til annarra verkefna sem eru komin lengra á veg.

Með stórauknum framlögum til þessa málaflokks höfum við sýnt skýran vilja til þess að gera miklar endurbætur og tryggja uppbyggingu nauðsynlegra innviða en við þurfum greinilega að gera betur í framkvæmdinni. Það er ekki skortur á fjármagni eingöngu sem verið hefur hindrun í uppbyggingunni, þvert á móti, þar sem vel yfir helmingi verkefna sem úthlutað hefur verið til er enn ólokið. Þetta munum við fara yfir á meðan fjárlagafrumvarpið er í vinnslu þingsins. (Forseti hringir.) Við munum gera tillögur um frekari framlög ef niðurstaðan verður sú eftir þessa skoðun. Það er alveg ljóst að tekjur sem renna beint frá gistináttagjaldinu í framkvæmdasjóðinn munu sennilega ekki duga. Það er of snemmt (Forseti hringir.) að segja til um það núna og þess vegna munum við fara betur yfir það í meðförum þingsins.