145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja út í nokkur smámál, þetta er svona sparðatíningur, það varðar fyrst og fremst það sem mér finnst vera óskýrt í frumvarpinu.

Á bls. 318 er liður undir Ýmis framlög atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem lagt er til að 80 millj. kr. verði veitt tímabundið í fimm ár til verkefnisins Matvælalandið Ísland. Ég velti því fyrir mér hvort það séu 80 millj. kr. á ári í fimm ár, sem um ræðir hér. Ef svo er eru það töluverðir peningar og mikilvægt að fyrir liggi aðgerðaáætlun um í hvað þeir peningar fara.

Á bls. 319 er talað um framlag, 25 millj. kr. framlag í fjögur ár. Kannski er þetta alltaf sett eins fram, en það er spurning hvort það er 25 millj. kr. framlag eða eru þetta 25 millj. kr. á hverju ári í fjögur ár? Eru þetta þá 100 millj. kr. allt í allt eða deilist það á þessi fjögur ár?

Ég tók eftir því þegar ég var að lesa þennan texta, mér fannst það eiginlega svolítið krúttlegt, að það stendur:

„Mikilvægt er að halda uppruna íslenska hestsins á lofti og byggja undir áframhaldandi og frekari markaðssókn hesta fæddra á Íslandi.“

Ég get tekið undir það. Svo kemur:

„Þá er mikilvægt að efla hestamennsku sem fjölskylduíþrótt hérlendis og erlendis og að hesturinn verði vaxandi hluti af upplifun ferðamanna hér á landi.“

Ég get líka tekið undir það en mér finnst sérstakt að sjá í fjárlagafrumvarpi að verið sé að hvetja til fjölskylduíþróttar, sem er þá reiðmennskan. Ég gæti alveg eins talað hér um tennis eða fjallgöngur eða hvað sem er. Ég tók bara eftir þessu og fannst þetta pínu skondið. Ég spyr hvort einhver stefnumótun sé í þá veru eða hvort þetta er bara vinsamleg ábending.

Síðan er neðarlega á bls. 320 talað um 15 millj. kr. hækkun á fjárheimild vegna aukins kostnaðar við úttektir á vinnslustöðvum á Íslandi. Þar segir að aðilar í útlöndum vilji ganga úr skugga um að framleiðsluaðferðirnar séu í lagi hér á landi og geri ríkar kröfur um matvælaframleiðslu og geri í ríkari mæli kröfu um að koma til Íslands og taka sjálfir út þær framleiðsluaðstæður sem hér eru og gera jafnframt kröfu um að Ísland greiði þann kostnað sem af slíkum úttektum hlýst.

Eins og ég les þetta er eins og það séu einhverjir aðilar í útlöndum, svolítið frekir, sem vilji gjarnan koma hingað og að við greiðum fyrir það. Er þetta ekki hluti af eftirliti sem við erum skuldbundin að sinna, þessar 15 millj. kr. hérna? Eru þetta eftirlitsheimsóknir ESA eða hvað er þetta? Erum við bara að láta undan einhverjum mönnum sem vilja gjarnan koma hingað og að við greiðum reikninginn?