145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:31]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir svörin. Ég fagna að sjálfsögðu því sem kom fram um samtöl en það samrýmist ekki alveg því sem ég heyri um bréfaskriftir sambandsins akkúrat núna til félagsmálaráðherra þar sem bréfum hefur ekki verið svarað eða fengið hljómgrunn.

Mig langar að benda á þær afleiðingar sem þetta hefur. Það að ekki sé verið að takast á við þetta mál akkúrat núna þýðir að fatlað fólk þarf að skerða þjónustu sína, fatlað fólk sem er háð þjónustunni til þess að lifa af. Það er auðvitað mjög alvarlegt. Þar að auki getur fatlað fólk ekki hækkað laun aðstoðarfólks síns til samræmis við þær launahækkanir sem eiga sér stað. Þetta er algjör pattstaða. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hvaða afleiðingar þetta hefur.

Mér finnst skrýtið, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur gefið það út að hún styðji og sé að vinna að innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að það endurspeglist ekki í fjárlagafrumvarpinu. Þeir sem eru að vinna að þessari innleiðingu ættu að vita að ein veigamesta greinin er 19. gr., greinin um sjálfstætt líf og réttinn til að lifa án aðgreiningar í samfélaginu. Með þá þekkingu ætti það að liggja bersýnilega fyrir í fjárlagafrumvarpinu að verið væri að gefa í til að stuðla að þessari réttarþróun fyrir fatlað fólk. Ég mundi gjarnan vilja fá skýrari svör varðandi þetta.

Við getum alveg látið eins og þetta sé ekki vandamál og við getum alveg beðið eftir því að tilraunaverkefninu ljúki, en þó að við látum eins og þetta sé ekki vandamál og bregðumst ekki við því núna þá þýðir það ekki að vandamálið gufi upp. Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir það fatlaða fólk sem (Forseti hringir.) tekur nú á sig skerðingar vegna þess sem virðist vera samskiptavandi ríkis og sveitarfélaga.