145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir yfirferðina og gleðst óendanlega mikið yfir því að meiri peningar hafi lent í nýsköpun og þróun því að eins og hann sagði er forsendan fyrir því að við byggjum upp gott og öflugt samfélag að auka pening í það.

Mig langar líka að nota tækifærið og þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hafa tryggt starfsemi Fisktækniskólans í Grindavík sem var mjög gott og góð viðurkenning á því mikla starfi sem forstöðumenn þess skóla hafa lagt á sig undanfarin tíu ár við að koma honum á laggirnar. Það er mjög ánægjulegt að hann skuli vera kominn með fast land undir fætur og ekkert nema gott um það að segja.

Kollegar mínir hafa farið í gegnum menntamálin, það er gríðarlega viðamikið. Ég hef sagt það áður við hæstv. ráðherra að það sem hægt væri að setja út á þau mál hjá honum er að hann hefur haft lítið samráð við utanaðkomandi við gerð allra þeirra breytinga sem verið er að gera á menntakerfinu. En það er nú eins og það er. Alltaf er hægt að laga það og ég vona að það verði gert í framtíðinni, alla vega finnst manni þegar maður talar við fólk utan að lítið samráð hafi verið haft.

Mig langar líka til að koma að öðru máli sem snýr kannski ekki beint að menntamálum en þó, það er túlkasjóðurinn. Ég velti fyrir mér hvort ráðherra telji það nóg, þær 29 milljónir sem lagðar eru í hann, hvort ekki hefði verið lag í ljósi batnandi stöðu ríkisbúskaparins, þegar verið er að skila rúmlega 15 milljarða afgangi af ríkissjóði, að fara í þessi mál og afgreiða þau í eitt skipti fyrir öll og gera þetta almennilega. Ég veit ekki hvaða orð ég á að nota, ég segi bara almennilega. Það er óþolandi að á hverju einasta ári skuli verða upphlaup í sambandi við túlkasjóðinn og að það fólk skuli þurfa að berjast fyrir réttindum sínum. Við erum svo langt á eftir Norðurlöndunum í þessum málum að það er eiginlega skammarlegt. Ég var að vona að hæstv. ráðherra hefði tekið á þeim málum og breytt þessu í ljósi þess sem á undan er gengið.

Ég hefði líka viljað hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða það að auka í atvinnutúlkasjóðinn. Nú hefur mikið verið rætt um bótaþega og annað þar fram eftir götunum og við hefðum getað komið miklum fjölda heyrnarlausra af bótum með því að auka við atvinnutúlkun.

Ég bendi á grein sem Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, skrifaði fyrir ári þar sem hann nefnir að hann hafi gert tillögur, og félagið, til menntamálaráðherra um hvernig taka ætti á þessum málum en því hefði ekki verið svarað.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er hann ekki sammála mér, hefði ekki verið lag að afgreiða þetta mál í eitt skipti fyrir öll þannig að við þyrftum ekki að standa í þessu endalaust?