145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að fókusera á framhaldsskólana og spyrja hæstv. ráðherra beint út í það. Það kemur fram í frumvarpinu á bls. 276 að heildarfjárveiting til málefnaflokksins sé að lækka um 58,9 millj. kr. frá gildandi fjárlögum þegar frá eru taldar almennar launa- og verðlagsbreytingar. Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það með okkur hvað felst í þeirri lækkun, hvað þar er á ferðinni.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra tengt þeim breytingum sem eiga sér stað á framhaldsskólanum, þ.e. að þeir árgangar sem eru að byrja í flestum framhaldsskólum, ekki öllum, þetta haustið eru eingöngu að fara í þriggja ára nám, búið er að gera flestum skólum það að bjóða eingöngu upp á þriggja ára nám: Er verið að vinna að áætlun um það hvernig menn bregðast þá við þegar tveir árgangar koma út? Það eru þá væntanlega tveir árgangar sem munu útskrifast saman úr framhaldsskólanum að þremur árum liðnum.

Mig langar að vita hvaða áætlanir menn hafa gert hvað það varðar vegna þess að það mun líklega verða býsna kostnaðarsamt, það unga fólk mun sækja áfram í nám annars staðar. Ég velti því fyrir mér hvort vitað sé hve mikill kostnaður gæti falist í því og hvernig því verður öllu fyrir komið. Ég veit að ég er að tala um framtíðina en þegar menn eru að gera stórar breytingar og fyrir fram er vitað að þær hafa áhrif skiptir máli að ræða það.

Ég kalla eftir því en mér hefur því miður fundist skortur á því hjá hæstv. ráðherra að hann komi með svona stór mál og svona stórar breytingar hingað inn. Mér finnst ekki rétt að við séum alltaf að ræða menntastefnu þjóðarinnar í umræðum um fjárlög eða fjáraukalög.