145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst af nokkurri athygli með umræðunni, eins og hv. þingmaður veit. Hv. þm. Kristján Möller er ekki nýgræðingur í pólitík en hann sagði nokkuð sem kom mér á óvart. Hv. þingmaður sagði: Ég vil ekki tala um kostnað í sambandi við þessa tillögu, en formaður hv. þingmanns, hv. þm. Árni Páll Árnason, staðfesti að heildarkostnaður mundi vera 30–40 milljarðar. Hvað á að kalla þetta ef þetta er ekki kostnaður? Ég held að hv. þingmaður þurfi að svara því.

Hv. þingmaður talaði fjálglega um að ríkisstjórnin hefði ekki gert neitt í þessum málum. Hv. þingmaður veit að þessi ríkisstjórn hefur forgangsraðað í þágu lífeyristrygginga og heilbrigðismála og það hefur verið erfiður slagur í þinginu, hv. þingmaður þekkir þær tölur mætavel. Formaður hv. þingmanns talaði að vísu um að þetta mundi ekki fjármagnað með tryggingagjaldi eins og gert hefur verið heldur yrði það gert með sérstöku gjaldi á nýtingu á sameiginlegum auðlindum, og nefndi þá sérstaklega ferðaþjónustuna og sjávarútveginn. En nú kemur hins vegar hv. þingmaður fram og talar um auðlegðarskattinn, sem lenti nú sérstaklega illa á eldra fólki sem ekki átti í lífeyrissjóði. Síðasta ríkisstjórn tók út þá einstaklinga sem eiga lífeyriseign, sem eru einkum stjórnmálamenn og embættismenn sem eru búnir að vera það lengi, hann undanskildi sjálfan sig en lagði í staðinn skatt á fólkið sem gat ekki greitt í lífeyrissjóði.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann: Ef ekki á að tala um kostnað í þessu samhengi hvað á þá að tala um? Eru deilur innan Samfylkingarinnar um það hvernig á að fjármagna þetta? Af orðum hv. þingmanns má að skilja að hann á við aðrar skattahækkanir en formaðurinn. Og fyrst við tölum um loforð, Samfylkingin lofaði að leggja af auðlegðarskattinn. Telur hv. þingmaður að það hafi verið mistök eða á að svíkja það loforð?