145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

byggingarsjóður Landspítala.

4. mál
[18:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala sem ég er einn af meðflutningsmönnum að líkt og allir þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Mig langar í upphafi ræðu minnar um þetta mál að segja að ég held að það sé alveg hárrétt sem 1. flutningsmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sagði í framsöguræðu sinni um að nauðsyn byggingar á nýjum Landspítala væri líklega óumdeild í íslensku samfélagi. Ég held að alveg sé óhætt að segja það, það skilja allir og vita að við núverandi húsakost er ekki hægt að búa öllu lengur og það verður að byggja nýjan spítala.

Til þess að framkvæmdir geti hafist þarf fjármuni og það er það sem þetta frumvarp gengur út á, að stofna byggingarsjóð fyrir Landspítalann til að tryggja þá fjármuni sem þarf til þess að af byggingunni geti orðið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í framsöguræðu sinni þá umfjöllun sem varð hér í sumar um jáeindaskannann, sem Landspítalinn fékk að gjöf. Hann bíður afhendingar og þess að hægt sé að taka hann í notkun, bíður þess að byggt verði utan um hann. Það segir kannski meira en mjög mörg orð um þá fáránlegu stöðu sem komin er upp í heilbrigðismálum þjóðarinnar, að ekki sé hreinlega hægt að taka nýjustu og bestu nauðsynlegu lækningatól í gagnið vegna þess að húsakosturinn er svo gamall, að hluta til svo úr sér genginn að hann hentar engan veginn fyrir þau tæki og tól sem nauðsynleg eru í nútímaheilbrigðiskerfi.

Í greinargerð með frumvarpinu er komið inn á að mikilsvert sé að bregðast við þeim vanda sem blasir við þegar kemur að því að tryggja mönnun í heilbrigðiskerfinu og að við þurfum að geta keppt um hæft starfsfólk við aðrar heilbrigðisstofnanir sem eru betur settar með tilliti til búnaðar og húsakosts. Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum þessu mikilvæga og vel menntaða fólki í landinu og við störf í heilbrigðisgeiranum.

Við þekkjum vitanlega öll þá umræðu sem hefur verið undanfarin missiri um það að við séum að missa mikilvægt, vel menntað og gríðarlega hæft starfsfólk úr landi, ekki einungis vegna þess að það lítur til þess að geta fengið betri laun annars staðar heldur einnig vegna þess að víða erlendis er auk betri launa boðið upp á betri vinnuaðstöðu. Og þá erum við einungis að tala um vinnuaðstöðu starfsfólks en höfum ekki einu sinni minnst á aðstæður notendanna, sjúklinganna sem þurfa einhverra hluta vegna að leggjast inn á spítala. Það hlýtur að segja sig sjálft að allar aðstæður til að ná bata fyrir fólk sem neyðist til þess að leggjast inn í húsnæði sem heldur kannski ekki í öllum tilfellum vatni og vindum og þar sem er of þröngt, þar sem of margir eru í herbergi, of margir sem þurfa að sameinast um salerni, eru miklu verri en í rúmgóðu og nýju húsnæði þar sem auk þess er hæft og vel menntað starfsfólk sem sinnir því. Þetta þarf auðvitað að fara saman og ég er viss um að fólk er mun fljótara að ná sér eftir veikindi ef það leggst inn á spítala þar sem húsnæðið er ekki gamalt og úr sér gengið.

Auðvitað ætti það að vera forgangsatriði hverrar þjóðar að hlúa að innviðunum og þá alls ekki síst heilbrigðis- og velferðarmálunum. Það er kostnaður sem hlýst af því að reka velferðarsamfélag og nútímaspítalar eru einfaldlega hluti af því og þess vegna þarf að afla tekna til þess að hægt sé að ráðast í byggingu. Það er auðvitað ekkert ódýrt að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús fyrir eitt stykki þjóð þó að fámenn sé og jafnvel þó að einhverjar af eldri byggingunum sé hægt að nota þá kostar þetta vitanlega peninga.

Í mínum huga er þetta hreinlega að verða spurning um hvort yfir höfuð sé vilji til þess að hafa hér velferðarsamfélag eða hvort framtíðarstefna Íslands sé sett á samfélag þar sem hinir efnameiri blómstra á kostnað hinna efnaminni vegna þess að ekki megi láta þá greiða til samfélagsins í takti við getu þeirra og fyrir vikið séu ekki til peningar til þess að vinna að verkefnum sem eru nauðsynleg til þess að velferðarsamfélagið geti þrifist. Ég tel að bygging nýs Landspítala sé einmitt dæmi um slíkt verkefni, það er einfaldlega verkefni sem er nauðsynlegt að ráðast í til þess að velferðarsamfélagið okkar geti þrifist.

Ég held að sú leið sem hér er lögð til, að koma á fót sérstökum byggingarsjóði vegna byggingar Landspítala þar sem tekjur af auðlegðarskatti, þ.e. skatttekjur sem koma frá þeim sem eru allra best stæðir í samfélagi okkar, eins og hún er útfærð í 6. gr. frumvarpsins, sé bæði skynsamleg og sanngjörn. Hún geti orðið til þess, ef frumvarpið verður samþykkt á þessu haustþingi, að hægt verði að hefjast handa og ráðast í þessa byggingu þannig að að nokkrum árum liðnum höfum við nýjan Landspítala sem ætti að verða aðlaðandi vinnustaður fyrir starfsfólk í heilbrigðisgeiranum og góður staður fyrir þá sem þurfa að nýta sér spítala vegna veikinda. Það yrði jafnframt gríðarlegur þáttur í því að efla velferðarsamfélagið þar sem þeir sem á þurfa að halda fá heilbrigðisþjónustu í boðlegu húsnæði. Ég vona því að þetta frumvarp verði samþykkt.