145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lýðháskólar.

17. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og stuðninginn og tek auðvitað undir hvert orð. Það er einmitt eitt í þessu að erlendir nemendur koma líka hingað, til dæmis í lýðháskólann á Seyðisfirði, þannig að á sama hátt og við sækjum til útlanda þá er þetta líka tækifæri fyrir erlenda nemendur að koma hingað. Það er bara mjög spennandi og ekkert nema jákvætt um það að segja.

Við ákváðum að hafa þetta eitt af forgangsmálunum, einmitt til þess að það fengi nægan tíma til að fara í ferli og fá umsagnir, vonandi sem flestar, og líka vegna þess að það eru önnur mál sem maður hefur mikinn áhuga á sem eru samt sem áður langsóttari. Það liggur svo fyrir að þetta þarf að gera að þess vegna er maður jákvæður á að ef það er ekki þegar byrjuð vinna í ráðuneytinu þá geti tillagan að minnsta kosti orðið til þess að ýta á slíka vinnu.

Ég vonast bara eftir að málið fái góða meðferð í nefndinni og stuðning hér á þingi.