145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir að gera málefni flóttamanna að umtalsefni. Mér er það algerlega óskiljanlegt hvers vegna við Íslendingar erum ekki byrjuð að vinna í því að taka á móti myndarlegum hópi flóttamanna. Hversu mörg okkar hér inni höfum í gegnum tíðina lesið mannkynssöguna og velt því fyrir okkur hvers vegna enginn gerði neitt? Við höfum öll gert það og þetta er þannig tímapunktur núna. Eftir einhver ár mun fólk velta því fyrir sér hvers vegna enginn gerði neitt. Við höfum tækifæri til að gera eitthvað. Við Íslendingar búum vel. Við höfum sterka innviði. Við höfum stórt hjarta. Við erum skynsöm og við viljum vera virkir þátttakendur í því sem er að gerast í veröldinni og við viljum létta undir. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna við erum ekki byrjuð. Á meðan 60 milljónir manna eru á vergangi um heiminn, þá erum við að velta því fyrir okkur: Eigum við nægilega mikið af sérfræðingum í þetta verkefni? Eða við veltum því fyrir okkur að sumir eru fluttir með einhverjum glæpalýð yfir hafið fyrir peninga á meðan aðrir eru skildir eftir og við getum ekki verið að taka á móti þeim eða þessum.

Virðulegi forseti. Allt þetta fólk er fólk eins og við og við mundum gera nákvæmlega það sama undir sömu kringumstæðum ef það væri búið að splundra veröld okkar, splundra heimilum okkar og splundra allri okkar tilveru, þá værum við líka á hlaupum með börnin í fanginu. Og hvað gerum við Íslendingar? Ja, við svona veltum þessu aðeins fyrir okkur. Þetta gengur ekki lengur og ég hvet hv. þingheim til að sameinast um að senda ríkisstjórninni skýr skilaboð um það að við viljum opna faðminn (Forseti hringir.) og taka á móti fólki vegna þess að barnaníðingar, þrælasalar og annað misindisfólk þarf engar nefndir þegar (Forseti hringir.) það er að taka með sér hóp barna og kvenna til að misnota, það bara grípur inn í.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna