145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að halda áfram með þann þráð sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir tók upp. Nú er það svo að í greinargerð með tillögu utanríkisráðherra kemur fram að greina megi, svo ég vitni í greinargerð, áberandi stefnubreytingar hvað varðar sterkari tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Í skýrslunni komi fram að þó að afnám fátæktar sé enn kjarni í þróunarsamvinnuríkjum hafi sífellt fleiri styrkt tengsl þróunarsamvinnustefnu, utanríkisstefnu og utanríkisviðskipta, sem snýr að því sama og var til umræðu hér.

Eigi að síður er það svo að þegar við sátum yfir þessu máli í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi komu þau sjónarmið líka sterklega fram hjá ýmsum þeim sem nefndin átti samtal við í kringum þetta mál að of mikið sambland utanríkisviðskipta annars vegar og þróunarsamvinnu hins vegar væri mjög varhugavert. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem gegndi embætti utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili, hvert hans mat er á því í ljósi þess að þótt að sjálfsögðu geti það verið snjöll leið að nýta viðskiptatengsl til þróunar kemur það ekki í stað tvíhliða þróunarsamvinnu, sem byggist á því að byggja upp innviði. Við getum talað um skóla, við getum talað um fæðingarþjónustu, við getum talað um vatnsveitu, öll þau atriði sem Þróunarsamvinnustofnun hefur komið að.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um sýn hans á þetta. Það kom fram í máli einhverra viðmælenda nefndarinnar að DAC varaði við of miklu samblandi viðskipta og hefðbundinnar tvíhliða þróunarsamvinnu. Eigi að síður er þetta sérstaklega nefnt í greinargerðinni sem rök með málinu þannig að sá díalógur er greinilega í gangi. Mig langar að spyrja hv. þingmann út frá reynslu hans sem ráðherra um sýn hans á þessi mál.