145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þingmanni innlegg hans hér. Ég vil taka undir það sem hann segir um meðferðina á forstöðumanni þessarar stofnunar sem einbeittur vilji er til að leggja niður. Hann bendir á að það er beinlínis rangt sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að öllum starfsmönnum verði boðin vinna í ráðuneytinu því að ljóst sé að einum er ekki boðin vinna í ráðuneytinu.

Hv. þingmaður hefur, eins og hann sagði sjálfur, starfað lengi að starfsmannamálum hjá ríkinu og þekkir þau út og inn. Kannski er þetta fullkomlega réttmætt, kannski er þetta löglegt. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort þetta sé samkvæmt lögum.

Mér finnst þetta skrýtið. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um reynslu hans af því sem hér stendur, að þeir starfsmenn sem ekki þiggja starf í ráðuneytinu verði sviptir biðlaunum, það kemur skýrt fram. Hefur það tíðkast í starfsmannamálum ríkisins að sagt sé: Nú ætlum við að leggja niður starfið sem þú ert í, við ætlum að færa það eitthvert annað, það verður í allt öðru umhverfi. Ef þú samþykkir það ekki, góði, þá nýturðu ekki biðlauna? Það er þó samningsbundinn réttur starfsmanna ríkisins. Getur hv. þingmaður sagt mér eitthvað um það?