145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir góða ræðu. Ég vil taka undir það með henni að mér finnst merkilegt að hvergi komi fram neinn rökstuðningur fyrir hinu meinta óhagræði af fyrirkomulagi þróunarsamvinnumála eins og þeim er núna fyrir komið. Ég verð að játa að ég las athugasemdirnar með frumvarpinu alveg sérstaklega vel af því að ég var einmitt að reyna að leita að einhverju dæmi sem yrði notað og ég fann ekki neitt. Mér fannst það ansi merkilegt.

Mér fannst það áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni að nú ætti að taka málið af fagstofnun og færa það að hinum pólitíska barmi, ég man ekki hvort hún sagði ráðuneytisins, en alla vega ætti að færa það nær pólitíkinni. Mig langar að spyrja nánar út í það. Það er einmitt talað um það, m.a. í jafningjarýni DAC sem framkvæmd var á árunum 2012–2014, að sífellt fleiri ríki séu að styrkja tengslin milli utanríkisviðskipta, utanríkisstefnu og þróunarsamvinnu. Ég spyr hv. þingmann hvort hún telji það gæfulega þróun fyrir þessi mál.