145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Íslendingar eru að upplagi hjartahlýtt fólk og þegar erfiðleikar steðja að, hvort sem um ræðir náttúruhamfarir eða önnur mannleg áföll, er reynslan sú að við stöndum saman sem einn maður og leggjumst öll á eitt við að leggja okkar af mörkum við að hjálpa, styðja, bjarga mannslífum, safna peningum eða það sem með þarf.

Og hvað er það sem við getum gert núna, hvert og eitt okkar, til að hjálpa fólki í erfiðleikum og neyð? Nú stendur heimurinn frammi fyrir einum stærsta flóttamannavanda sem við höfum upplifað frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Tugir milljóna manna eru á flótta frá heimalandi sínu sökum stríðsrekstrar og annarra hörmunga sem ríkja heima fyrir. Flóttafólk fer ekki á vergang að gamni sínu. Það kemur til okkar í Evrópu til að leita sér skjóls og betra lífs fyrir sig og börnin sín, sjá sjálfu sér farborða. Við horfum á hrikalegar myndir daglega í sjónvarpinu þar sem flóttafólk hrökklast landa á milli við ömurlegar aðstæður og biður um skjól og öryggi. Við getum ekki slökkt á sjónvarpinu og látið sem okkur komi þetta ástand ekki við. Við berum siðferðilega skyldu til að leggja okkar af mörkum og taka á móti flóttamönnum opnum örmum. Íslendingar hafa brugðist vel við sem þjóð en stjórnvöld draga enn lappirnar í málinu. Sveitarfélög og einstaklingar hafa boðið fram aðstoð við móttöku flóttamanna og áskoranir koma frá almenningi um að stjórnvöld bjóði flóttamenn velkomna. Rauði krossinn leitar eftir aðstoð við móttöku flóttamanna á síðunni vertunæs.is. Verum nú næs, Íslendingar og stjórnvöld, (Forseti hringir.) sýnum hvað í okkur býr og bjóðum flóttamenn velkomna til Íslands. Við verðum að grípa til aðgerða strax, þetta er neyðarástand og við þurfum að hjálpa núna.


Efnisorð er vísa í ræðuna