145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemd við fundarstjórn forseta því það er langt síðan ég bað um orðið en ég fyrirgef það.

Virðulegi forseti. Ég er ekki hokin af reynslu sem varaformaður þingflokks. Ég er búin að vera það í rétta viku eða svo. Ég er oftast ekki kona formlegheita en ég hélt að ef það kæmi formleg beiðni til þingflokksformanna um að ráðherrar þyrftu að víkja af fundi og eitthvað slíkt, þá væri það öðruvísi en að spyrja: Gerið þið athugasemdir ef ég fer af fundi? Ég hélt að við værum að spjalla saman, við hinir góðu kunningjar sem við hæstv. ráðherra erum, og hann segir: Munduð þið gera athugasemdir? Já, auðvitað gerum við athugasemdir. Síðan sagði ég við hann, eftir nokkra umhugsun: En þú getur náttúrlega beðið um að fresta fundi, við gerum engar athugasemdir við það. En formleg skal ég vera í framtíðinni í því virðulega embætti sem það er að vera varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar.