145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[10:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku bárust fregnir af því að Útlendingastofnun hefði vísað úr landi nokkrum hælisleitendum frá Sýrlandi á grunni Dyflinnarreglugerðarinnar en sú reglugerð felur í sér, eins og öllum ætti að vera orðið kunnugt um, heimild til að aðildarríki í Schengen-samstarfinu geti endursent hælisleitendur til þess lands þar sem þeir komu fyrst inn á svæðið.

Mikilvægt er að hafa í huga að Dyflinnarreglugerðin felur einungis í sér heimild til slíkrar endursendingar á fólki en ekki skyldu eins og stundum mætti ætla af fréttaflutningi. Raunar er það mjög gegn anda samkomulagsins ef ríki sem njóta landfræðilegrar einangrunar léku þann leik að vísa öllum af höndum sér á grunni hennar. Rifja má upp að fyrir tæpum fimm árum, þann 14. október 2010, ákvað ráðherra dómsmála og mannréttinda að hætta að senda hælisleitendur til Grikklands um tíma vegna þess að aðstæður í Grikklandi voru taldar með öllu ófullnægjandi. Vegna þessa fordæmis og í ljósi þess ástands sem nú ríkir víða á meginlandi Evrópu vegna flóttamannastraumsins vil ég spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hún hyggist senda Útlendingastofnun tilmæli um að hætta, að minnsta kosti tímabundið, brottvísun fólks frá Sýrlandi með vísun í Dyflinnarreglugerðina.