145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[11:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari umræðu hér um markmið fangelsisrefsinga og aðgerðir til að fækka endurkomum í fangelsi sem, eins og við vitum, eru allt of tíðar.

Fangelsisrefsing er önnur tveggja refsitegunda á Íslandi og felst í frelsissviptingu sem birtist einkum í skerðingu á sjálfstæði og athafnafrelsi þeirra sem sæta fangelsisvistinni. Athafnafrelsi fanga er skert með innilokun í fangelsi. Þeir þurfa að sætta sig við félagslega einangrun frá fjölskyldum, vinum og vinnustað, þurfa að þola ýmsar ákvarðanir, samvistir við aðra fanga og margvísleg óþægindi sem þeim fylgja. Í umfjöllun um markmið refsinga er oft bent á að markmiði og tilgangi refsinga megi skipta í fimm þætti: Tryggja réttaröryggi, fælingaráhrif, bætur, hegning og í fimmta lagi betrun.

Ætla verður að fullnusta refsinga eigi meðal annars að standa vörð um markmið refsinga.

Hér á árum áður var minni áhersla lögð á viðreisnarþáttinn við fullnustu refsinga þó að hann hafi ekki alveg verið undanskilinn. Með árunum hefur meiri áhersla verið lögð á að gera fullnustu fangelsisrefsinga mannlegri og gera fanga betur í stakk búna til að taka þátt í samfélaginu á ný og takmarka þannig líkur á því að þeir brjóti af sér aftur.

Þekkt er að löng afplánun í fangelsi getur haft í för með sér ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir fanga, svo sem þunglyndi, vonleysi og fleira þess háttar. Einnig getur slík frelsissvipting haft mikil áhrif á nánustu aðstandendur fanga. Eitt af meginhlutverkum fangelsisyfirvalda er að reyna að sporna gegn slíkum neikvæðum og óæskilegum afleiðingum en í lögum um fullnustu refsinga er kveðið á um ýmis úrræði í því skyni, svo sem vinnu utan fangelsis, nám, dagsleyfi og afplánun utan fangelsis í lok refsitímans.

Þá eru meðferðir, svo sem áfengis- og fíkniefnameðferðir, aðstoð sálfræðinga, félagsfræðinga, iðjuþjálfa og annars heilbrigðisstarfsfólks, allt liður í því að reyna að betra fanga og takmarka neikvæðar afleiðingar frelsissviptingar og koma í veg fyrir að fangi brjóti af sér á nýjan leik.

Rétt er hins vegar að benda á að framangreint takmarkast aðallega af fjármunum en einnig í ákveðnum tilvikum af framboði, svo sem vinnu, menntuðu starfsfólki og fleira í þeim dúr. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ekkert í lögum um fullnustu refsinga kemur í veg fyrir að fangar fái aukna félagslega þjónustu frá því sem er í dag, vinnu, nám o.s.frv., en hér verða allir að leggjast á eitt og þar á meðal fjárveitingavaldið.

Í frumvarpi sem kynnt hefur verið á vefsíðu innanríkisráðuneytisins og stefnt er að að leggja fram á komandi vikum er enn frekari áhersla á sjónarmið um betrun við fullnustu. Í frumvarpinu er að finna nýtt markmiðsákvæði þar sem meðal annars er vísað til að draga eigi úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli aðlögun dómþola í samfélaginu. Þó að frekari umfjöllun um nýtt frumvarp til fullnustu refsinga bíði þar til það verður lagt fram eru í því nýjungar sem hvetja eigi fanga til að taka sig á. Þannig er styrkari stoðum rennt undir þrepaskiptingu afplánunar, þ.e. að fangar vinni sig upp í betri aðstæður með góðri hegðun, vímuefnalausu lífi o.s.frv. Þá er þar kveðið á um svokallað fjölskylduleyfi, rýmri reynslulausnarreglur fyrir unga fanga o.fl.

Ég tel einnig skynsamlegt að skoðað verði hvort rétt sé að taka í notkun nýjar refsitegundir sem einstaklingar gætu verið dæmdir í í stað fangelsisvistar í sumum tilvikum og einnig að fullnusta utan fangelsa verði rýmkuð, enda hafa slík úrræði reynst afar vel auk þess að vera ódýrari en hefðbundin refsivist. Vinna við gerð fullnustuáætlunar er í gangi en þar verður meðal annars skoðað hvernig hægt er að rýma fullnustu utan fangelsis, auk þess sem nýjar refsitegundir verða teknar til skoðunar og eftir atvikum útfærðar með aðstoð refsiréttarnefndar.

Í þessu sambandi erum við auðvitað að ræða það að gerð verði breyting á almennum hegningarlögum í þá veru að öðru úrræði verði bætt við, svokallaðri samfélagsþjónustu. Það er vilji minn að við förum strax í það að skoða möguleika á slíkum breytingum á hegningarlögum í samstarfi við refsiréttarnefnd.

Þá er rétt að skoða að danskri fyrirmynd hvernig hægt er að undirbúa betur lausn fanga út í samfélagið í meiri samvinnu við sveitarfélögin sem veita félagslega þjónustu. Þannig væri hægt að tryggja betur félagslega aðstoð þegar fangi losnar úr fangelsi og þannig minnka líkur á endurkomu í fangelsi. Eins og við vitum kemur annar hver fangi aftur í fangelsi og það er allt of hátt hlutfall.

Lækkun á endurkomutíðni er mikilvægt markmið og þar þarf að skoða virkni ólíkra leiða til að ná fram því markmiði sem best.