145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

101. mál
[13:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og óska nýjum forseta til lukku með embættið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga á þessu stigi umræðunnar. Nú er þetta lagt fram aftur og eins og ég skil hæstv. ráðherra þá er tillagan óbreytt. Ég vil spyrja út frá athugasemdum sem bárust við vinnslu málsins hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þá sérstaklega að því er varðar athugasemdir um samspil við aðra löggjöf og annað regluverk.

Í kafla 1.3.2 er fjallað um utanvegaakstur. Þar er talað um að Landmælingar Íslands skuli veita aðgang að kortagrunni við samþykkta vegi og vegslóða utan flokkunarkerfis vegalaga. Eftir því sem ég best veit er sú sýn á kortlagningu vegaslóða komin inn í frumvarpið sem hæstv. ráðherra mun vonandi mæla fljótlega fyrir. Ég fagna því sérstaklega að Vegagerðin hafi það verkefni með höndum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki rétt hjá mér að farist hafi fyrir að samræma þessa tvo texta því að hér er enn þá eldri sýnin höfð að leiðarljósi.

Hins vegar vil ég spyrja almennt um kafla 1.3.3 um stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins hverju það sætir að þar er ekki minnst á náttúruverndarlög.

Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra um þá staðreynd að þetta er mikið samráðsplagg, en ekki hafi sérstaklega verið leitað eftir samráði við grasrótarhreyfingar (Forseti hringir.) á sviði náttúruverndar, þá er ég sérstaklega að tala um Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands.