145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða flóttamannamálin sem hafa aldeilis verið til umræðu að undanförnu. Staðan í ár hefur verið með hreinum ólíkindum. Það eru nýjar fréttir á hverjum degi af fólki sem ferst á leiðinni til Evrópu eða fólki sem kemst yfir í yfirfullar flóttamannabúðir ýmist á Ítalíu eða í Grikklandi. Það er talið að 110 þúsund flóttamenn hafi komið til Ítalíu frá Líbíu það sem af er ári og 160 þúsund manns hafi flúið til Grikklands frá Sýrlandi í gegnum Tyrkland á þessu ári. Eins og okkur öllum er kunnugt hefur straumur flóttafólks í Evrópu ekki verið meiri frá stríðslokum. Yfir 2 þúsund flóttamenn hafa drukknað í för sinni yfir Miðjarðarhafið á þessu ári í leit að betra lífi í Evrópu. Við munum öll eftir myndinni af litla drengnum, Aylan Kurdi, sem skolaði upp á strönd í Tyrklandi. Í morgun fannst fimm ára sýrlensk stúlka látin í Eyjahafi eftir að bátur sökk og þar er nokkurra saknað.

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir um helgina, sem ég held að við í stjórnarandstöðunni höfum öll fagnað. Ég hef að minnsta kosti gert það, ég fagna því að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun. Ég fagna þeim fjárframlögum sem á að setja í móttöku flóttamanna og ég tel að þetta sé ábyrg afstaða og það skiptir máli. Ég vil segja hér, og það kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra í þessum fréttum, að þetta er nefnilega ekki átaksverkefni, þetta er langtímaverkefni. Við gætum verið að horfa upp á umfangsmestu þjóðflutninga sem við höfum séð á síðari tímum. Við gætum verið að horfa upp á langvarandi ástand þar sem fólk yfirgefur heimili sín og það gerir að sjálfsögðu enginn að gamni sínu. Það skiptir máli að horfa á þetta með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þess vegna vildi ég ræða bæði skammtímaaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur nú þegar kynnt en líka langtímasýn.

Við erum að horfa upp á það að það kerfi sem við búum við á Íslandi er flókið. Ég hef að minnsta kosti orðið vör við það. Ég er bara venjuleg manneskja og mér fannst erfitt að átta mig á muninum á flóttamanni og hælisleitanda. Flóttamenn eru þeir sem stjórnvöld í raun og veru ákveða að taka á móti, hælisleitendur eru þeir sem komast hingað af sjálfsdáðum. Á forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar eru margir þeirra endursendir. Það er verið að endursenda fólk þessa dagana. Það er umhugsunarefni á sama tíma og við höfum ákveðið að taka á móti flóttamönnum. Þurfum við ekki að skoða málefni hælisleitenda og skoða Dyflinnarreglugerðina sem byggir á því að hælisleitendur sem hingað koma hafa flestir komið til annars Schengen-ríkis og hafa þá verið endursendir til þess lands? Þetta fólk á það sammerkt með flóttamönnum að það býr við ógnanir í heimalandi sínu og er þess vegna að sækja um alþjóðlega vernd.

Mig langar að heyra sýn hæstv. forsætisráðherra á þessa stöðu og stöðu Schengen-svæðisins, hvort það sé ástæða til að endurskoða Dyflinnarreglugerðina og hvernig við ætlum að taka saman á þessu ástandi sem ég held, eins og ég sagði áðan, að sé langtímaástand þannig að við getum brugðist við með samhentum hætti. Á þessu ári eru 200 hælisleitendur þegar búnir að sækja um alþjóðlega vernd og það er umtalsverð fjölgun frá því í fyrra.

Mig langar líka að ræða hvað við getum gert sameiginlega í stjórnmálunum til að bregðast við því andrúmslofti kynþáttahyggju sem við sjáum hugsanlega spretta upp í kjölfarið á þessum miklu þjóðflutningum. Þetta er umræða sem er mikil og hávær annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. óttinn við þá sem eru öðruvísi. Þar hafa menn rætt um að við séum að horfa upp á ástand sem jafnast einna helst á við millistríðisárin þegar kemur að óttanum við „hitt“, ef við getum orðað það þannig.

Mér finnst að það ætti að vera samstarfsverkefni okkar sem erum í stjórnmálunum að berjast gegn kynþáttahyggju, tryggja að við fylgjum þeim sjónarmiðum sem Ísland er aðili að í gegnum mannréttindayfirlýsinguna um að hver og einn maður eigi rétt á að lifa því besta mögulega lífi sem hægt er og það skipti ekki máli af hvaða uppruna fólk er. Ef við gætum náð saman um það held ég að það væri óskaplega dýrmætt fyrir íslensk stjórnmál til lengri tíma litið.

Þetta er nefnilega verkefni sem við þurfum líka að takast á við samhliða því sem við ræðum stjórnskipulag, praktísk málefni í tengslum við móttöku flóttamanna, hvernig við ætlum að fara með hælisleitendur, líka hvernig umræðan á að þróast í samfélaginu þannig að við getum tryggt að við getum áfram búið hér öll í sátt og samlyndi. Mér finnst skipta miklu máli að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra hefur að segja um þessa langtímasýn. Við vitum það alveg hér á landi og þekkjum það frá öðrum Norðurlandaþjóðum, sem hafa tekið á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum og hælisleitendum hlutfallslega en Íslendingar, að þar hefur þessi umræða blossað upp. (Forseti hringir.) Það skiptir miklu máli að við stöndum saman um að berjast gegn henni.