145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Landsbankinn hefur viljað kalla sig banka allra landsmanna en því er ekki fyrir að fara í ljósi framgöngu hans. Harkalegar aðgerðir bankans á Vestfjörðum bera þess ekki vitni að þar fari þjóðarbanki í eigu ríkisins sem vilji þjónusta alla landsmenn. Vestfirðir hafa sérstaklega goldið fyrir harkalegar aðgerðir bankans gagnvart viðskiptavinum sínum en þar hefur bankinn lokað útibúum einu af öðru og nú síðast skellt í lás á Þingeyri, Suðureyri og í Bolungarvík þar sem 11 störf eru undir.

Við þessar ákvarðanir bankans í skjóli hagræðingar hefur því tapast fjöldi starfa og einnig hefur þessi ákvörðun haft áhrif á þjónustu Íslandspósts sem hefur verið í samrekstri í þessum útibúum og víðar. Landsbankinn hefur ekki sýnt neinn vilja til að endurskoða starfsemina og styrkja hana, t.d. með verkefnum í fjarvinnslu frá miðlægri starfsemi bankans, heldur er viðskiptavinum, fyrirtækjum og almenningi boðið að sækja þjónustu áfram um langan veg eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Í aðgerðalista Landsbankans frá 2011 er talað um siðasáttmála og bætta þjónustu. Þar er líka talað um samfélagslega ábyrgð og segir, með leyfi forseta:

„Við ætlum að kynna nýja og heilsteypta stefnu um samfélagslega ábyrgð …“

Er það samfélagslega ábyrgðin gagnvart landsbyggðinni í verki að öll starfsemin sem skilar ekki hámarksarði sé skorin af í skjóli sömu græðgi og olli bankahruninu 2008? Hvar eru nú framsóknarmennirnir sem samþykktu á flokksþingi sínu að við ættum að gera Landsbankann að samfélagslegum banka í eigu ríkisins, „non-profit“? Ætla þeir að stinga hausnum undir væng og láta Sjálfstæðisflokkinn stjórna ferðinni og selja Landsbankann í bútum eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu? Vestfirðingar kalla nú eftir afstöðu og aðgerðum þingmanna sinna til þessara harkalegu og hrokafullu aðgerða Landsbankans gagnvart viðskiptavinum (Forseti hringir.) sínum og margir þeirra stefna að því að færa viðskipti sín eitthvað annað. Fólki er nóg boðið.


Efnisorð er vísa í ræðuna