145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Óttarr Proppé, sem var hér á undan mér í ræðustól, að koma inn á málefni flóttafólks og innflytjenda en eðlilega hafa þau málefni verið okkur mjög hugleikin undanfarnar vikur og missiri.

Í sérstakri umræðu í gær var niðurstaða ráðherranefndar tekin fyrir. Ég verð að segja það hreint út að mér finnst það dæmi um stefnufestu og skjót en um leið vönduð vinnubrögð í framgöngu allra þeirra sem að þeirri heildstæðu áætlun koma. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem ræddu þetta málefni í gær og hrósa öllum þeim sem voru til samráðs fyrir skipulögð og yfirveguð viðbrögð við þessum aðsteðjandi vanda. Sú heildstæða áætlun sem okkur birtist er þess eðlis að við getum á sem öflugastan hátt veitt okkar liðsinni.

Með skipan ráðherranefndar og öflugu samráði við sveitarfélög og stofnanir, bæði innan lands og utan, og sérfræðinga er þessi niðurstaða þess eðlis að það er ekki bara fjárframlagið upp á 2 milljarða sem ákveðið var að skyldi varið til aðstoðar flóttafólki og innflytjendum á þessu ári og því næsta, heldur sú heildarsýn sem birtist í þeirri aðgerðaáætlun sem því fjárframlagi fylgir til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir sem vinna meðal flóttafólks á vettvangi og til móttöku flóttafólks og hælisleitenda til Íslands, og enn fremur til að við getum tekið á móti fólki í nýjum framandi heimkynnum með myndarbrag og í samvinnu við stofnanir eins og Rauða krossinn og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna