145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:37]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti og aðrir þingmenn. Ég þakka kærlega fyrir það sem ég hef fengið að heyra. Mig langar aðeins að bregðast við nokkrum hlutum sem fram komu. Mig langar að taka undir með hv. þm. Óttari Proppé þegar hann talaði um sameiginlegan vasa því þannig er nú staðan að þetta kemur allt úr þessum eina stóra vasa sem einhvers staðar er. Það skýtur auðvitað skökku við að við skulum vera að skila fjárlögum með 15 milljarða kr. hagnaði þegar mörg sveitarfélög glíma við viðvarandi vanda. Ég nefni þar Kópavog, Hafnarfjörð og Reykjavík sérstaklega því það eru stór sveitarfélög þar sem Björt framtíð á t.d. aðild að meiri hluta og það er þvert á alls konar flokka þannig að ég held að ekki sé hægt að kenna því einu sér um að rót vandans sé í flokkunum sjálfum. Tekjur eru að hækka eins og fjármálaráðherra benti á og við eigum þá öll að njóta góðs af því, mundi ég halda.

Ég vildi koma inn á það af hverju þessi umræða er að koma upp núna, hvort hún verði bara til vegna þess að Reykjavíkurborg eigi við einhvern séríslenskan rekstrarvanda að stríða. Það er ekki svo. Þessi umræða kemur upp, og ég kom að því í ræðu minni áðan, vegna lýðfræðilegra breytinga sem kalla á að við þurfum að horfa á það hvernig við deilum út hinum sameiginlegu tekjum sem við höfum úr að moða. Það er fyrst og fremst það sem ég er að horfa til og líka vegna breytinga á atvinnuvegum. Eins og fram kom áðan kallar ferðaþjónustan á mjög dýrar framkvæmdir í sveitarfélögum sem oft ráða bara ekkert við slíkar framkvæmdir.

Svo vil ég skora á hæstv. fjármálaráðherra og innanríkisráðherra að beita sér með mun fókuseraði og öflugri hætti í því að leiða þessa umræðu áfram með sveitarfélögum því ég held að það skorti alls ekki á vilja þar til að takast á við þetta. Við skulum ekki bara horfa á þetta út frá pólitískum skoðunum okkur á einhverjum tilteknum(Forseti hringir.) meiri hlutum eða minni hlutum í sveitarstjórnum í dag, þetta er risastórt framtíðarmál sem við verðum að horfast í augu við.