145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það sem vakti athygli mína voru vangaveltur hv. þingmanns um stefnuna í stjórnaruppbyggingu Stjórnarráðsins þar sem hún sagði eiginlega að ríkisstjórnin hefði enga stefnu í og mér sýnist það vera nokkuð rétt. Hún tók dæmi um það að verið er að flytja stofnun, sem allir hrósa og hefur ekki fengið á sig neina gagnrýni svo ég viti til, inn undir væng Stjórnarráðsins og embættismanna þar án þess, eins og hún sagði líka, að nokkur rök væru færð fyrir því, en á sama hátt — eða í alveg öfuga átt — hefðu staðið hér umræður þegar menntamálaráðherra vildi á síðasta vetri allt í einu flytja fólk út úr ráðuneytinu og í sérstaka stofnun. Þetta er náttúrlega hvort í sína áttina og ætti að mínu mati helst ekki að vera.

Auðvitað getur ólík uppbygging átt við um ólíka málaflokka, en samt sem áður slær það mig og að hér sé bara hentistefna hjá ráðherranum. Ráðuneytismenn í utanríkisráðuneytinu hafa eins og við vitum öll lengi viljað fá þetta inn í ráðuneytið og ráðherrann lætur það eftir þeim og svo finnst menntamálaráðherranum kannski betra að sýna að menn hans, ef ég má komast þannig að orði, stjórni einhverri stofnun úti í bæ og hafi þá meira frelsi en innan ráðuneytisins. Mig langar aðeins að heyra hvort þingmaðurinn hafi velt þessu fyrir sér.