145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa skeleggu ræðu. Eins og jafnan þá ristir hún djúpt til kjarnans í málum af þessu tagi. Það má velta því fyrir sér af hverju þetta mál er í þessari undarlegu stöðu. Þetta er eiginlega táknrænt, finnst mér, fyrir utanríkisstefnuna eins og hún er rekin í dag. Þetta mál er bersýnilega sett á oddinn af hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er kjarni utanríkisstefnunnar eins og hún er rekin af ríkisstjórn Íslands í dag og þegar ég segi að þetta sé táknrænt er ég auðvitað að hugsa til annarra mála. Menn bundu ákveðnar vonir við hæstv. utanríkisráðherra. Hann talaði þannig í upphafi að þótt það væri ágreiningur til dæmis milli mín og hans um Evrópusambandsmálin þá var margt annað sem hann kastaði upp í fyrstu ræðum sínum sem maður batt vonir við og hefur síðan séð glutrast út í bláinn.

Hæstv. ráðherra ætlaði sér til dæmis í upphafi að bæta sérstaklega sambandið við Bandaríkjamenn. Í hvaða stöðu er það núna? Þar tala menn þannig í kross að þegar hæstv. ráðherra á samtal við varautanríkisráðherra Bandaríkjanna kemur sá út úr því samtali og fer í fjölmiðla og segir að ráðherrann hafi beðið um að herinn komi aftur til Íslands. En það tekur enginn mark á þessu. Það er ekki einu sinni rætt á Alþingi Íslendinga. Þannig er pundið í utanríkisráðuneytinu orðið í dag. Satt að segja er það þannig að þegar hæstv. utanríkisráðherra annars vegar og hins vegar borgarstjórinn í Reykjavík tala um utanríkismál vekur það miklu meiri eftirtekt þegar borgarstjórinn talar.

Norðurslóðamálin, sem menn vonuðu að hæstv. ráðherra stæði við orð sín um að halda áfram, hafa bara týnst, glutrast. Það eina sem er að gerast þar er að gerast í forsætisráðuneytinu. Svona mætti lengi telja. Þetta er eina málið. Þess vegna er málið í þessari stöðu. Ég vil svo taka undir það sem hv. þingmaður sagði um hversu sorglegt það er að sjá hvað þetta mál er hlaðið dylgjum og ýjunum. Ef maður ætlar að setja niður þessa stofnun á ekki að gera það með svona umbúnaði, að þetta verði grafskrift stofnunar sem hefur unnið samfélaginu vel, að hún sé slegin af vegna þess að hún hafi ekki verið í takt við utanríkisstefnuna, (Forseti hringir.) hún hafi verið óskýr. Þetta finnst mér ekki sæmandi. Ég er viss um að hv. þingmaður, eins og hann kom fram áðan, er mér hjartanlega sammála um það.