145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Atburðir undanfarinna daga í málefnum Reykjavíkurborgar þegar meiri hluti Reykjavíkurborgar ákvað einhliða að setja innkaupabann á Ísrael, hefur vakið mig til umhugsunar um valdmörk stjórnvalda. Kveðið er á um bæði ríki og sveitarfélög í stjórnarskrá landsins og almennum lögum og þar er alveg skýrt kveðið á um valdmörk þessara stofnana ríkisins. Reykjavíkurborg fór fram með samþykkt þessa og fór þar af leiðandi algerlega yfir valdmörk síns sveitarfélags þegar meiri hlutinn í borginni fór einhliða að skipta sér af utanríkismálum Íslendinga með skelfilegum afleiðingum, með þeim afleiðingum að íslenskum vörum var hent úr hillum verslana eins og t.d. í Bandaríkjunum. Íslenska vatnið varð fyrir barðinu á því, íslenskur bjór varð fyrir barðinu á því, en það var ekki fyrr en viðskiptabannið fór að bíta á Reykjavíkurborg sjálfa að skipt var um stefnu í málinu og þeim bolta var kastað upp að hugsanlegt væri að meiri hluti Reykjavíkurborgar mundi draga tillöguna til baka.

Ég ætla ekki að leggja mat á hvort borgarstjóri hafi gerst sekur um ósannindi í Kastljóssþætti en því hefur verið fleygt í fjölmiðlum að svo hafi verið vegna ákveðinnar tímasetningar á tölvupósti sem barst fjölmiðlum þar sem fram kom (Gripið fram í.) að hótelið sem rísa á á Hörpureitnum væri í hættu ef viðskiptabannið yrði ekki dregið til baka. (Gripið fram í: Hvað kostaði viðskiptabannið Ísland?) Ég hef afskaplega lítinn frið til að tala fyrir vinstri mönnum (Gripið fram í.) í þessum þingsal. Þetta snertir greinilega viðkvæma strengi en stjórnmál eru ekki grínþáttur eða uppistand. Stjórnmál eru dauðans alvara og (Forseti hringir.) stjórnmál og orð stjórnmálamanna geta verið dýr og eru dýr í þessu tilfelli. (Gripið fram í: Já …) (Gripið fram í.)


Efnisorð er vísa í ræðuna