145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Elínu Hirst. Stöðugleiki er forsenda fyrir bættum lífskjörum, en það er eins og við getum ekki munað það lengur en í svona 20 ár, þá erum við búin að gleyma því aftur. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sem hér kallar fram í er nú á sama aldri og ég og hann man það eins og ég að þegar við vorum yngri voru endalaus verkföll. Laun voru hækkuð mjög mikið, um tugi prósenta sem sér skilaði ekki fyrir almenning. Hér komu ágætir menn, sem fallnir eru frá, eins og Einar Oddur Kristjánsson og Guðmundur jaki og útskýrðu fyrir þjóðinni að þetta gengi ekki upp. Og hvers vegna ekki? Vegna þess að þetta gengur ekki upp og það hagnast enginn á þessu fyrirkomulagi. Allir tala um að við þurfum að fara í norræna módelið en við erum langt frá því. Við erum að fara eins langt frá því eins og mögulegt er. Ég held að það séu um 200 kjarasamningar á Íslandi, í Svíþjóð eru þeir átta, Svíar eru átta milljónir talsins. Verklagið á Norðurlöndunum er mjög einfalt verklag, hvort sem það er í Noregi, Danmörku eða Svíþjóð. Menn byrja á útflutningsgreinunum, meta hvað þær þurfa mikið svigrúm og síðan er samið á öðrum sviðum, m.a. í opinbera geiranum. Það væri mikil synd eftir allt sem á undan er gengið, eftir allar þær fórnir sem íslenska þjóðin hefur fært að undanförnu ef við stefnum í óstöðugleika og mikla verðbólgu. Það væri algerlega skelfilegt, en það er mjög margt sem bendir til þess að við séum á þeirri leið núna. Svo mikið er víst að við erum mjög langt frá því norræna módeli sem menn tala um.

Ég vona að við berum gæfu til þess að snúa af þeirri braut sem við erum á núna og við þurfum að gera það sem allra fyrst.


Efnisorð er vísa í ræðuna