145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða störf þingsins og nánar tiltekið stinga upp á því að þingskapanefnd komi saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Á Alþingi má ýmislegt bæta en þar er enginn skortur á hugmyndum til úrbóta. Skortur er á að þær séu ræddar og sumar hverjar innleiddar. Sumt er ópólitískt en gæti bætt starfið mjög mikið. Hugmyndir um litlar breytingar eru til dæmis að hverri breytingartillögu fylgdi upprunaskjal í breyttri mynd. Hvað ef slegnar væru sjálfkrafa upp breytingartillögur sem fylgja umsögnum? Hvað ef efni landslaga þingmála væru gefin út á tölvutæku sniði?

Svo er hægt að fara út í stærri spurningar eins og: Hvað ef nefndafundir væru að jafnaði opnir? Hvað ef forseti væri kosinn með auknum meiri hluta þings? Ég vil taka fram að ég tel að sitjandi forseti færi létt með að afla sér slíks umboðs. Það mundi auðvelda honum að spyrna við þrýstingi ríkisstjórnar og hann þyrfti ekki að sitja undir því að vera handbendi ríkisstjórnarinnar þegar hitinn í þinginu eykst sem við vitum öll að hann mun gera. Hvað ef þingmannamál lögð fram af fulltrúum allra flokka fengju forgang í dagskrá þingsins?

Það er ýmislegt sem hægt er að ræða. Það er enginn skortur á hugmyndum og ég held að það sé löngu kominn tími til þess að þingskapanefnd komi saman og ræði þær fjölmörgu hugmyndir sem hér hefur borið á góma og þær sem munu eflaust fæðast í slíku ferli.


Efnisorð er vísa í ræðuna