145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hlýleg orð í minn garð. Það eru nú yfirleitt bara strákarnir sem hrósa hverjir öðrum af þessum þrótti hér í þingsal þannig að ég vil þakka kærlega fyrir það.

En á síðasta kjörtímabili naut umhverfismálaflokkurinn þess að mörgu leyti að vera með stærri meiri hluta hér en ríkisstjórnin hafði. Við nutum stuðnings þingmanna Hreyfingarinnar allan tímann í þessum stóru umhverfismálum og það ber að þakka og þingmenn sem sögðu skilið við ríkisstjórnina á kjörtímabilinu sögu ekki skilið við umhverfismálin þannig að allan tímann vorum við í raun og veru með 38 atkvæði í þingsal með grænu málunum. Það var sérlega ánægjulegt þegar farið að fjara verulega undan í öðrum málum að upplifa þá sterku samstöðu.

Hv. þingmaður er nú ekki með neina smáræðisspurningu hérna og eins og hennar er von og vísa þá eru þetta alvöruspurningar og hún spyr: Hvað getur Ísland gert? Ég hef alltaf verið talsmaður þess að Ísland sé herlaust land og utan hernaðarbandalaga og ég hef litið svo á að þetta litla land norður í hafi geti sem slíkt verið rödd breytinga á alþjóðavettvangi og við getum verið rödd friðar og afvopnunar. Það er á sama hátt mín afstaða að við getum verið rödd þeirra sem hafna olíuleit og olíuvinnslu algerlega á okkar svæði og þar með stígum við þau skref að segja að það er óábyrgt að halda áfram olíuleit og olíuvinnslu og vinnslu á jarðefnaeldsneyti þegar við vitum að þar er stærsti sökudólgurinn þegar losun gróðurhúsalofttegunda er annars vegar. Það er eins og að tala í tveimur heimum ef við tökum þetta ekki saman. Svo hef ég vonandi tækifæri til að bæta um betur í næsta andsvari.