145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:31]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef yfirleitt ekki þann hátt að skjalla fólk nema það eigi það skilið. Það var í raun og veru merkilegt að fylgjast með öllum þeim gríðarlega miklu árásum sem hv. þingmaður varð fyrir meðan á hennar ráðherratíð stóð. En mér finnst líka mjög mikilsvert að ég hef heyrt í þingmönnum, m.a. hv. þm. Elínu Hirst sem maður skynjar að vilji vera með í því að leyfa náttúrunni að njóta vafans. Ég efast ekki um að hæstv. umhverfisráðherra sé það líka og mér finnst mjög mikilvægt að umhverfismálin séu ekki föst vinstra megin. Þau varða okkur öll og framtíð barnanna okkar og barnabarnanna okkar og í raun ættum við alltaf þegar við tökum ákvarðanir sem skipta máli, m.a. um náttúruna, að hugsa til næstu sjö kynslóða. Alltaf þegar við ákveðum til dæmis að virkja eitthvað eða fara olíuleit þá eigum við að huga að næstu sjö kynslóðum.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni að mér finnst það ekki í samræmi við þá ímynd sem við viljum hafa og þá stefnu sem við ættum að hafa að fara í olíuleit í samfloti við Kínverja á Drekasvæðinu. Mér finnst það ákaflega furðulegt og óheillavænlegt. Því miður var það ákvörðun sem var tekin hjá hinum vinstri flokknum að fara í þetta samstarf. Mér finnst mjög mikilvægt að það komi líka fram að þeir sem oft herja á náttúruna og láta hana ekki njóta vafans eru líka vinstra megin og þeir sem eru með í liðinu um að leyfa náttúrunni að njóta vafans eru stundum hægra megin. Þetta á ekki að vera flokkspólitískt þannig að ég skora á alla þingmenn (Forseti hringir.) hvar í flokki sem þeir eru að standa með náttúrunni og hugsa til næstu kynslóða.