145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt, fram undan er þensla á vinnumarkaði. Vinnumálastofnun bendir á að við munum á næstu árum þurfa að flytja inn heilmikið af vinnuafli og þá sér maður fyrir sér sömu stöðu og við vorum í fyrir hrun í góðærinu mikla þegar hingað komu þúsundir manns til vinnu og margir hverjir bjuggu við skelfilegar aðstæður. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur að óttast að sú staða geti skapast aftur um leið og við hljótum að fagna því að vinnuafl geti komið hingað þegar þörf er á. En við eigum auðvitað að koma vel fram við alla óháð því hver ástæðan er fyrir því að fólk er komið á íslenskan vinnumarkað.

Mig langaði að segja varðandi íbúðirnar að þetta eru ekkert sérstaklega háfleygar hugmyndir. Þetta eru bara hugmyndir um að hafa sæmilega geymslu eða hafa rými til daglegra athafna þar sem veggirnir þrengja ekki um of að fólki í daglegu lífi. Ég held að það sé mjög auðvelt að færa rök fyrir því af hverju við eigum að setja þau viðmið. Félagsstofnun stúdenta sem er eitt framsæknasta fasteignafélag á Íslandi byggir fjöldann allan af glæsilegum smáíbúðum og ég veit ekki hvort þau fá í einhverjum tilfellum undanþágu frá byggingarreglugerð en þau hafa getað gert ýmislegt innan þessa svigrúms. Ég veit líka að þau hafa gert ýmsar athugasemdir. Ég held að við þurfum að spila þetta þannig að skynsemi sé höfð að leiðarljósi en (Forseti hringir.) við eigum að sýna metnað í þessu og við eigum að ætlast til þess að allir eigi aðgengi að húsnæði á Íslandi.