145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[15:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ákaflega elskulegt andsvar. Jú, svo sannarlega á hún bandamann í formanni velferðarnefndar hvað varðar aðgengismálin. Ég sagði það í fyrra andsvari að ég væri kannski ekki sú í mínum flokki sem legði hvað mesta áherslu á 6. töluliðinn, sem er endurskoðun á byggingarreglugerð. Hún hefur verið til endurskoðunar frá því hún var lögð fram á sínum tíma og af henni hafa verið sniðnir þeir vankantar sem allir voru sammála um að væru óþarfakröfur og væru til þess fallnar að hækka um of byggingarkostnað. En við vitum öll úr okkar daglega lífi hvað aðgengi skiptir miklu máli. Aðgengi snýst ekki bara um hreyfihamlað fólk þótt það eitt og sér væri alveg gild ástæða, en auðvitað býr fjöldi fólks á Íslandi við hreyfihömlun og það skiptir miklu máli hvernig aðgengið er og ef þú ert í hjólastól þarftu ekki bara að geta komist inn heima hjá þér. Við viljum að þær manneskjur geti líka haft umgengni við aðra og jafnvel komið inn á heimili annarra, ef við leyfum okkur að vera svo róttæk, þá mundum við kannski telja það sjálfsögð mannréttindi í nútímavelferðarsamfélagi.

En á Íslandi eru líka 40 þúsund eldri borgarar, margir hverjir við góða heilsu, en sá hópur mun bara fara stækkandi. Núna þegar ´68-kynslóðin fer að komast í auknum mæli á ellilífeyrisaldur þá verður þetta miklu hærra hlutfall, hlutfallslega verðum við eldri þjóð og þá skipta aðgengismálin máli og þau skipta líka miklu fyrir ungar fjölskyldur með mikið af smáum börnum, þá einfaldar gott aðgengi daglegar athafnir.