145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

styrking leikskóla og fæðingarorlofs.

16. mál
[16:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mig langar aðeins að koma upp í kjölfar tveggja síðustu ræðumanna og segja að mér finnst fróðlegt að heyra hvernig viðhorf til leikskóla hefur breyst á nokkrum áratugum. Það væri óskandi, virðulegi forseti, að viðhorf fólks til fleiri hluta í þjóðfélaginu hefðu breyst á þann veg.

Ég man þá tíð þegar leikskólar voru aðallega til þess að passa börnin, til þess að einhver passaði börnin á meðan mamma og pabbi væru úti að vinna. Nú vekur hv. þm. Hörður Ríkharðsson hins vegar athygli á því, í góðri ræðu, að þarna er það einmitt sem krakkarnir læra venjur og félagsfærni alls konar, sem er gott að allir krakkar læri. Og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagðist þakklát fyrir það að krakkarnir hennar hefðu verið í leikskóla.

Ég minnist þess þegar ég flutti, ekki mjög gömul en þó ekki ung, til Belgíu með fimm ára strák. Þá þótti það frekar verra, þegar hann kom í skólann, að hann hefði ekki verið í leikskóla, vegna þess að það var skylda að allir krakkar kæmu í leikskóla þriggja ára; og það var náttúrlega gjaldfrjálst fyrst það var skylda. Þau máttu vera hálfan daginn, en ef börnin komu ekki þá var hringt í foreldrana og sagt: Á ekki að senda þessa krakka í skóla? Það munaði svo miklu að þau væru vön því að umgangast krakka og vera í hóp þegar þau komu í grunnskólann og áttu að hefja þar sitt hefðbundna nám.

Ég hef svo sem enga sérstaka spurningu, langaði bara til að koma þessu að og kannski leggja áherslu á það að við þurfum að hækka greiðslurnar (Forseti hringir.) til fæðingarorlofsins aftur. Það er ekki síður mikilvægt en að lengja það.