145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[15:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar enn og aftur að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum nr. 9/2014, sem eru um það fólk sem kýs, eða á þann eina kost eftir í peningavandræðum sínum, að fara í gjaldþrot. Í þessum lögum átti að veita 250.000 kr. styrk til þess, því að það kostar það að biðja um gjaldþrot. Ef um er að ræða hjón sem fara í gjaldþrot þá eru það 500.000 kr. sem þau þurfa að leggja fram.

Ég spurði hæstv. ráðherra í fyrra eða í lok síðasta þings um þetta mál. Þá svaraði hún, með leyfi forseta:

„Ég hef því í hyggju — og það mun koma núna á næstu þingmálaskrá — að koma með frumvarp og hef kynnt það fyrir ríkisstjórn, um breytingar á skilyrðum sem varða bæði greiðsluaðlögun og gjaldþrotaskipti.“

Virðulegi forseti. Nú er ég búin að fara í gegnum þingmálaskrána og ég sé ekkert þar sem gefur til kynna að breyta eigi þessum lögum, en hæstv. ráðherra getur kannski sagt mér meira um það.

Það kom greinilega fram í fyrirspurn sem ég lagði fram í fyrra og náði til held ég til níu mánaða á árinu 2013 að þetta úrræði, eins og það er í lögum nr. 9/2014, virkar ekki, það virkar einfaldlega ekki. Ég er núna með fyrirspurn inni um allt árið í fyrra og helming þessa árs, þannig að það verður fróðlegt að sjá það.

Mig langar til að ganga eftir því: Hvar er frumvarpið sem á að breyta þessu?