145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þá höfum við það. Vilji einhverjir kröfuhafar skrá kröfubréf sín í skattaskjólum í heiminum þá mun lýðveldið Ísland gefa þeim afslátt af þeim skatti. Þetta finnst mér dálítið merkilegt og kannski enn þá merkilegra vegna þess að það verður þá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem heldur betur ætlaði að taka á hrægammasjóðunum, sem framkvæmir þennan gjörning. Og ekki minnkar hræðsla mín og áhyggjur út af því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um að það þurfi að fá fljóta meðferð í gegnum þingið. Drottinn minn dýri. Nei, ég held að þetta frumvarp megi ekki fá fljóta meðferð hér í gegn.

Ég kalla eftir hv. þm. Frosta Sigurjónssyni sem er formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem fær þetta mál. Mér finnst mjög skrýtið að hann skuli ekki koma inn í þessa umræðu og tjá skoðanir sínar og leyfa okkur að heyra sín sjónarmið í þessu máli vegna þess að við þurfum að vega það og meta. Það er þó verið að flytja frumvarpið hérna.

Virðulegi forseti. Talað er um stöðugleikaskattinn sem var boðaður fyrst 39% og svo kom seinna meir stöðugleikaframlagið sem er miklu lægra. Hér hefur verið talað um að stöðugleikaframlagið sé 300–350 milljarðar kr. en skatturinn hafi verið allt að 850 milljarðar. Ef maður horfir til þess sem var á breiðtjaldinu, sem var aftan við forsætisráðherra og fjármálaráðherra á Hörpufundinum þegar þetta var kynnt, þá er afslátturinn ef til vill miklu meiri.

Ég sagði það nefnilega við atkvæðagreiðslu við 3. umr. málsins, þegar það voru farnar að renna á mig tvær grímur um hvað væri þarna á ferðinni, að hér væri komin skilgreining á skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hann vann kosningar út á í síðustu kosningum, (Forseti hringir.) sem átti að vera til heimilanna í landinu. Skuldaleiðréttingin á að vera fyrir (Forseti hringir.) erlenda hrægammasjóði.