145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Öryggismál sjómanna hafa aðeins verið í fréttum undanfarið en ótrúlega lítið samt að mínu mati. Stutt er síðan fiskiskip sökk og einn maður fórst og litlu mátti muna að allir færust. Ég tek heils hugar undir kröfur sjómanna um að allt verði gert sem hægt er til að komast að því hvað fór úrskeiðis. Í fyrsta lagi: Hvernig stóð á því að skipinu hvolfdi svo skyndilega? Var stöðugleikinn ekki í lagi? Hvernig stóð á því að hvorugur björgunarbáturinn losnaði frá skipinu og opnaðist því ekki? Hvernig stóð á því að nærstödd skip voru ekki að hlusta á neyðarbylgju eins og þeim ber skylda til?

Varðandi síðasta atriðið þarf augljóslega að gera átak í því að fá sjómenn til að hlusta á neyðarbylgjuna. Varðandi hin tvö atriðin er engin önnur leið en að ná flakinu upp og rannsaka það. Sjómenn hafa hingað til haft mikla trú á þeim sleppibúnaði sem er í skipum þeirra en nú gætir ákveðinna efasemda og því mikið í húfi að eyða þeim efasemdum.

Fyrsta atriðið er ekki síður mikilvægt. Í Slysavarnaskóla sjómanna er mikil áhersla lögð á að öryggistæki númer eitt er skipið sjálft og því lögð mikil áhersla á að skipið sé í lagi og allur búnaður þess. Var stöðugleiki skipsins í lagi í umræddu tilfelli? Ef svo var, hvernig gat það þá oltið svo skyndilega? Til að komast að því er aðeins ein leið og það er að ná flakinu upp og rannsaka það.

Getur verið að það hafi verið mistök að sameina þrjár rannsóknarnefndir, þ.e. flugslysa, umferðarslysa og sjóslysa, í eina nefnd, rannsóknarnefnd samgönguslysa? Voru það mistök að láta Siglingastofnun renna inn í Samgöngustofu? Getur verið að siglingamálin og öryggismál sjómanna hafi minna vægi í þeirri stofnun?

Efinn er ekki besti vinur sjómannsins og því ekki ásættanlegt að sjómenn verði skildir eftir með efann um að stöðugleiki skipanna sé í lagi og að tilviljanakennt verði hvort björgunarbátar opnist eða ekki. Til þess að fá svör við þeim vangaveltum er aðeins ein leið, (Forseti hringir.) það er að sækja flakið og rannsaka það.


Efnisorð er vísa í ræðuna