145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég les þessa þingsályktunartillögu og verð að segja að ég er ansi feginn því að vera ekki í þeirri ríkisstjórn sem er falið þetta verk. Hér eru gerðar kröfur til gjaldmiðils sem ég fæ ekki betur séð en að séu ómögulegar ef gjaldmiðillinn á að vera íslenska krónan. Við því hef ég ekki endilega neina sérstaka lausn. Ég ætla að reyna að halda ræðu minni þannig að hún einblíni ekki alfarið á evruna heldur bara það hvernig íslenska krónan virkar eða virkar ekki, og hvað við getum hugsanlega gert til að ná einhverjum af þessum markmiðum, alla vega að einhverju leyti. Þetta eru háleit markmið.

Í rökstuðningi með stefnunni skal horft til eftirfarandi þátta, með leyfi forseta:

„a. að notkun gjaldmiðilsins efli traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma litið,

b. að notkun hans auki möguleika á stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og betri lífskjörum,

c. að gjaldmiðillinn auki frelsi í viðskiptum við útlönd,

d. að gjaldmiðillinn henti íslensku atvinnulífi og hafi góð áhrif á atvinnustig og útflutning,

e. að gjaldmiðillinn auðveldi hagstjórn, minnki áhættu í íslensku efnahagslífi og sé áhættuminni en aðrir valkostir,

f. að gjaldmiðilsstefnan sé vel framkvæmanleg með hliðsjón af þeim öðrum samhliða aðgerðum sem þörf er á á sviði ríkisfjármála, peningamála og í samningum við önnur lönd.“

Þetta er enginn smáræðis óskalisti. Þegar ég hugsa um íslensku krónuna þá dettur mér fyrst í hug verðbólga, það er það fyrsta og síðasta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um þann gjaldmiðil.

Eina markmiðið sem ég held að íslenska krónan mundi henta temmilega vel fyrir er d-liðurinn, þ.e. að gjaldmiðillinn henti íslensku atvinnulífi og hafi góð áhrif á atvinnustig og útflutning. Kannski er þetta rétt. Ég er reyndar ekkert fullkomlega sannfærður um það, eins og margir virðast gefa sér, að lítið atvinnuleysi á Íslandi sé afleiðing gjaldmiðilsins. Það getur svo sem verið. Ég tel að atvinnuleysi sé aðeins flóknara vandamál en svo að hægt sé að útskýra það með einum þætti.

Það er nefnilega eitt vandamál sem við eigum við að stríða hér, sem margar aðrar smáþjóðir, og sér í lagi einangraðar, eiga við að stríða, sem við tölum ekki mikið um. Á ensku heitir það, með leyfi forseta, „brain drain“ en eina íslenska þýðingin sem ég þekki er „spekileki“. Ég tek eftir því að fólk flytur mikið úr landi og það finnur tækifæri annars staðar. Það vill oft búa annars staðar en á Íslandi, ekki síst vegna þess að hér eru lífskjörin einfaldlega ekki nógu góð miðað við menntun þess og reynslu og tækifæri. Ekki endilega magn tækifæra, heldur einnig fjölbreytileika tækifæra. Þetta er allt saman háð efnahagslegum samskiptum okkar við aðrar þjóðir, vitaskuld, ekki síst núna með tilkomu netsins þegar fólk sér meira inn í útlönd og sér betur hvaða tækifæri leynast þar en áður.

Þetta er vandamál sem við tölum ekki mikið um. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að við erum í einhvers konar afneitun eða höfum hreinlega ekki tekið eftir því, en þetta er eitt af þeim vandamálum sem ég held að sé til staðar á Íslandi og sé algjörlega sambærilegt við atvinnuleysi.

Það er lítið mál að halda atvinnuleysinu niðri ef allir fara úr landi. Það er ekkert mál. Margir hafa bent á það, þegar gortað er af litlu atvinnuleysi, að fullt af fólki hefur flutt úr landi og margir eru enn að flytja úr landi þrátt fyrir að efnahagurinn sé að taka við sér á ný., samkvæmt fréttum reyndar fleiri íslenskir ríkisborgarar en snúa til baka. Það er mikið áhyggjuefni. Krónan er ekki að bjarga okkur frá því.

Nú veit ég ekki hvort ég geti boðið nokkrar lausnir í þessari stuttu ræðu sem ég get haldið hér, nema eina hugsanlega, sem er sú að endurvekja gamlan draum og reyna að gera hann að einhverju skynsamlegra en hann var, en það er sú hugmynd að Ísland verði að einhvers konar fjármálamiðstöð norðursins. Fráleit hugmynd með hliðsjón af sögunni, en ég vil undirstrika að hugsanlega er það eina lausnin út úr þessu.

Hugsanlega er það eina leiðin til þess að við getum haldið sjálfstæðan miðil — aukið frelsi, eflt traust á íslenskum efnahag og haldið stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og öllum þessum frábæru markmiðum — að Íslendingar frá barnæsku til eldri ára, frá bankamanninum niður til atvinnuleysingjans, skilji hagkerfið. Ég held því fram að Íslendingar almennt, þar á meðal jafnvel bankamenn, þingmenn, stjórnmálamenn, skilji ekki hagkerfið, skilji ekki hvernig það virkar, viti ekki hvernig þeir eiga að haga sér í því. Undir slíkum kringumstæðum er ógerlegt að sýna ábyrgð eða skynsemi, alla vega svo að telja megi.

Verðbólgan, sem er viðvarandi og hefur verið viðvarandi frá upphafi, hefur skelfilegar afleiðingar — ekki bara allt það sem við getum farið út í í sambandi við það hver notar krónuna fyrst og nýtur hennar þar af leiðandi mest; stundum kallað falinn skattur, ég hef ekki tíma í alla þá umræðu — en það er það að með íslenskri krónu meðfram verðbólgu þá eru langtímaáætlanir ómögulegar. Það þýðir að menn þurfa að nota það sem stundum er kallað drullumix eins og verðtryggingu. Drullumix er hún vissulega og þegar fólk vill einfaldlega banna hana þá gleymir fólk oft að hún er mix til þess að leysa undirliggjandi vandamál sem fer ekki neitt þó að við tökum burt verðtrygginguna.

Ég vek athygli á því að bankar bjóða í dag upp á óverðtryggð lán. Hvers vegna nýta ekki allir sér þau lán? Jú, vegna þess að verðtryggingin hefur þó þann kost að ef spáð er lágum vöxtum og fólk er í aðstöðu til að halda launakjörum sínum nokkurn veginn í takt við verðbólgu, alla vega yfir langt tímabil, sér það fyrir sér að verðtryggingin henti því betur.

Ég veit heldur ekki hvernig í ósköpunum við ætlum að halda úti nokkurs konar lífeyriskerfi, sem stólar alfarið á langtímaáætlanir í fjármálum, án þess ýmist að hafa verðtryggingu, með tilheyrandi brölti og leiðindum í bankakerfinu og húsnæðismarkaðnum o.s.frv., eða með erlendum gjaldeyri. Það er eina hina leiðin sem ég sé. Þá verður maður að spyrja sig: Af hverju ekki einfaldlega að nota erlendan gjaldeyri í íslensku samfélagi þegar höftin eru farin? Hvers vegna ekki að reyna að fá borgað í evrum eða dollurum? Hvers vegna ekki að reyna að borga með evrum og dollurum? Hvers vegna mundi einhver vilja nota gjaldmiðil sem maður veit með vissu að verðbólga muni ganga á með tímanum? Hvers vegna mundi maður vilja gera það? Af einhverju þjóðarstolti? Varla. Vissulega ekki af skynsemi, svo mikið er víst. Þannig að við þurfum að velta fyrir okkur hverju af þessum markmiðum við yfir höfuð getum náð. Að því gefnu að við göngum ekki í Evrópusambandið og tökum ekki upp evru, sem, meðan ég man, ég er ekkert viss um að leysi öll þessi vandamál eða uppfylli öll þessi skilyrði, en líklega einhver þeirra, líklega mörg þeirra.

Ég fæ ekki betur séð en að það séu tvær leiðir til þess að halda uppi íslensku krónunni. Ein er sú að hafa hér allt í höftum, ekki bara fjármagnshöftum, heldur líka fólkshöftum, ef vel á að fara, vegna þess að við missum sérfræðingana úr landi. Hitt er lausn sem er jafnvel háleitari en öll þessi markmið hér. Það er það að við hreinlega eigum gjörvallt hagkerfið í erlendum gjaldeyri. Það er það í reynd að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar í mjög ónákvæmum og ófræðilegum skilningi verði nægur til að borga fyrir allt hagkerfið. Það eru upphæðir sem ég er ekkert viss um að menn þori að tala um hér enda tel ég það ekki raunhæft.

Eitt er víst að við náum ekki þessum markmiðum með íslensku krónunni. Þá legg ég til að við horfumst í augu við þá staðreynd, að við lítum á það sem staðreynd. Frekar en að reyna að ná fram þessum markmiðum með íslenskri krónu eigum við að vera viðbúin, að vera viðbúin efnahagslegum skakkaföllum, að leggja áherslu á fræðslu og menntun í fjármálum þannig að fólk kunni að undirbúa sig, til dæmis með því að spara í verðtryggðu. Ég veit að fullt af fólki hefur enga peninga til að spara, en sumt fólk gerir það og sparar ekki verðtryggt þegar það ætti að gera það, eða í erlendum gjaldeyri ef það er í boði, það er sums staðar í boði hér á Íslandi. Það er algjört lágmark tel ég að íslensk þjóðin, og ég meina öll íslenska þjóðin, ekki bara almenningur heldur valdamenn líka, skilji hvernig er hægt að lifa með íslensku krónunni meðfram skakkaföllum, meðfram hruni.

Hvernig lifir maður af hrun efnahagslega? Það er spurning sem íslenska þjóðin ætti að spyrja sig vegna þess að það verða fleiri hrun á meðan við erum með krónu, það er gefið, það er bara tímaspursmál, bara spurning um stærðargráðu og tíma — og reyndar sennilega líka með öðrum gjaldmiðlum ef út í það er farið. Verum tilbúin.