145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:58]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég deili áhuga flutningsmanna tillögunnar á að þessi mál séu skoðuð og að kostir og gallar gjaldmiðla séu skoðaðir, vegna þess að mikilvægt er að hafa í huga kosti þess að vera með sinn eigin ríkisrekna gjaldmiðil eins og hefur verið rakið hér, og þá aðlögunarhæfni sem margir segja að hafi komið í veg fyrir atvinnuleysi, mætti líka orða það þannig að hafi falið atvinnuleysi um tíma en kemur þó heimilum vitaskuld til góða að einhverju leyti.

Hér er gengisfelling nefnd sem við þekktum á síðustu öld. Hún kom auðvitað til aðallega vegna björgunaraðgerða til handa sjávarútveginum sem á sínum tíma var rekinn hér í bullandi tapi ár eftir ár og í algerri óstjórn. Gengisfelling sem sérstök aðgerð var alltaf aðgerð til þess að bjarga einum og auðvitað á kostnað hinna í þjóðfélaginu. Það er ekki leið sem er boðleg og ég mundi ekki tala fyrir henni. Því nefni ég þetta.

En krónan sem slík — það er auðvitað hægt að taka sjálfstæða ákvörðun um að hér séu ekki gengisfellingar. Sérstakar gengisfellingar hafa ekki verið undanfarið þótt tómt mál sé að tala um gengi á Íslandi í dag í gjaldeyrishöftunum. En þá er það líka alveg algjört grundvallaratriði að mínu áliti að gjaldeyrishöftunum verði aflétt og menn sjái það svart á hvítu hvers trausts krónan nýtur. Það er náttúrlega grundvallaratriði og forsenda allrar umræðu um (Forseti hringir.) þennan gjaldmiðil.