145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er viðeigandi að hefja þennan umræðulið með því að minnast á þau stórtíðindi sem bárust í morgun um að ríkisstjórnin hefði ákveðið að um eitt þúsund sjúklingar með lifrarbólgu C skyldu fá ný lyf við sjúkdómnum. Ákveðið hefur verið að gera samstarfssamning við lyfjafyrirtækið Gilead en í honum felst að fyrirtækið mun leggja ríkinu til lyfið Harvoni fyrir um 1.200 manns en það lyf læknar lifrarbólgu C í nær öllum tilvikum.

Heilbrigðisráðherra kallar þetta meiri háttar forvarna- og lýðheilsuátak og er það ekki ofsagt. Öllum þeim sem greinst hafa með veiruna verður boðin fræðsla, meðferð og eftirfylgni og er ætlunin að lágmarka þannig hættuna á nýjum tilvikum sjúkdómsins með smiti milli manna. Átakið er til þriggja ára og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja í það um 150 millj. kr. á ári sem varið verður til blóðrannsókna og annarrar þjónustu sem tengist meðferðinni. Þetta mun væntanlega þýða að hægt verður að útrýma lifrarbólgu C hér á landi og eru það stórtíðindi.

Á hverju ári greinast 40–70 manns með lifrarbólgu C hér á landi. Sjúkdómurinn getur valdið skorpulifur, lifrarkrabba, lifrarbilun og leitt til þess að græða þurfi nýja lifur í sjúklinga. Réttu lyfin eru lífsnauðsynleg. Einstaklingar eiga ekki að bera kostnað af þessu nýja verkefni. Lyfið býðst án endurgjalds, einnig þeim sem ekki taka þátt í rannsóknum.

Þetta er gífurlega mikilvægt skref og mikið ánægjuefni að ríkisstjórnin hafi tekið þetta skref í morgun. Það er rétt að ljúka þessu á orðum Fanneyjar Ásbjörnsdóttur í fréttum RÚV í dag en hún smitaðist af lifrarbólgu C fyrir 32 árum. Hún höfðaði síðan mál gegn ríkinu til að fá lyfið Harvoni en tapaði því fyrir dómstólum. Fanney segir að það sé stórkostlegt að upplifa þennan dag. Við skulum hafa það á hreinu að þetta meðferðarátak er einsdæmi á heimsvísu.


Efnisorð er vísa í ræðuna