145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera hér að umtalsefni athugasemdir umboðsmanns Alþingis við stjórnsýslu Seðlabanka Íslands. Það kemur fram í athugasemdum umboðsmanns að svo virðist sem mjög alvarleg brotalöm sé í stjórnsýslu Seðlabanka Íslands og að alvarleg brotalöm hafi komið í ljós við meðferð trúnaðarupplýsinga.

Virðulegur forseti. Það hlýtur að koma til kasta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að skoða og fara yfir álit umboðsmanns Alþingis um stjórnsýslu Seðlabanka Íslands. Þessar athugasemdir sem umboðsmaður gerir hljóta að hafa snertiflöt við mjög margar rannsóknir sérstaks saksóknara varðandi meint brot á reglum um gjaldeyrisviðskipti. Það er einu sinni þannig að stjórnsýslan á að vera til verndar borgurunum en ekki hið gagnstæða.

Komi í ljós að þessi alvarlega brotalöm á stjórnsýslu Seðlabankans hafi haft í för með sér rannsóknir á einstaklingum og fyrirtækjum án þess að fyrir því væru gild rök eða reglur um gjaldeyrismál og brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands þá erum við verulega illa stödd og Seðlabanki Íslands og stjórnsýsla hans komin langt út yfir velsæmismörk.


Efnisorð er vísa í ræðuna