145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að fá aðeins betri útlistun á því hvort hv. þingmaður væri á móti þessu frumvarpi af því að verð mundi hækka og þjónustan skerðast eða hvort það sé út af lýðheilsurökum. Hann talaði mikið um lýðheilsumálin og að neyslan mundi aukast, en fór svo að tala um að verð mundi hækka af því að smásöluaðilarnir sem tækju við sölunni mundu ekki sætta sig við þá álagningu sem er hjá ÁTVR. Hann talaði jafnframt um það hvað vínbúðirnar veittu góða þjónustu og væru með gott úrval, sem sagt gott aðgengi líka sem væri þá söluhvetjandi.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir einmitt að hækkandi verð frekar en að dregið sé úr aðgengi muni draga úr neyslu.