145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um það í ræðu sinni að kannski ættum við að prófa að setja bjór í ákveðnar deildir í matvöruverslunum og síðan gætum við metið það eftir á hvernig það hefði gengið. Það eru til góðar rannsóknir, ein til dæmis frá Svíþjóð þar sem mæld voru áhrif þess að hætta sölu á miðlungssterkum bjór í matvöruverslunum árið 1977 í Svíþjóð. Niðurstaðan þar var með þeim hætti að ég mundi ekki mæla með því að slík tilraun yrði gerð. Í ljós kom að áfengisneysla einstaklings var 8% minni tveimur árum eftir að hætt var við að selja miðlungssterkan bjór í matvöruverslunum í Svíþjóð. Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkuðu umtalsvert, sérstaklega meðal ungmenna, tíðni skaðsemi af völdum áfengis var mun hærri þegar miðlungssterkur bjór var til sölu í matvörubúðum og tíðni skorpulifrar var sérstaklega há yfir tímabilið svo dæmi séu tekin. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að (Forseti hringir.) við getum lært af þessum niðurstöðum af rannsóknum Svía, hvort við þurfum að gera þessa tilraun á okkur sjálfum hér.