145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu. Ég tók eftir því að hv. þingmaður einblíndi mikið á lýðheilsusjónarmiðin og fór mikið út í umsagnir frá fyrri umfjöllun þingsins á síðasta þingi og tel það ágætt, en hv. þingmaður fór hins vegar ekki með þau rök sem heyrast mjög mikið, sem eru að þetta muni valda minna úrvali á landsbyggðinni sér í lagi og hærra verði og því um líku.

Það sem ég átta mig ekki á, ég er að reyna að leysa ákveðna ráðgátu sem er: Hvers vegna vill enginn banna bjórinn? Hvers vegna vill enginn fækka útsölustöðum? Hvers vegna vill enginn hærra verð? Hvers vegna vill enginn minna úrval? Ef þetta leiðir af sér minna úrval og hærra verð, þá spyr ég hv. þingmann og vona að hún geti svarað en skil það vel ef ekki, spurningin er einföld: Hvað með það?